Einhver bið verður enn á því að við ferðumst til Portúgal en ferðalög eru þó núna handan við hornið. Þessi sætabrauð sem eru smjördeigsbökur með vanillu- rjómafyllingu eru stolt Portúgala. Í Lissabon er bakarí sem heitir Pastis de Belem þar sem byrjað var að framreiða þessi sætabrauð árið 1837. Bakaríið er enn í fullu fjöri og er enn að baka þau bestu í bænum og laða að sér heimafólk jafnt og ferðamenn. Vel þess virði að taka sporvagninn og heimsækja. Auðvelt er að baka þau heima og meira að segja nokkuð fljótlegt. Hér er uppskriftin og fást 12 sætabrauð úr henni, dásamlegur morgunverður á sunnudegi.
200 g smjördeig
3 dl mjólk
1 dl rjómi
100 g sykur
korn úr 1 vanillustöng (eða 1 tsk. vanilludropar sett í síðast)
5 eggjarauður
2 msk. kartöflumjöl
2 msk. flórsykur
Hitið ofninn í 230°C. Smyrjið örlitlu smjöri eða olíu ofan í holur á múffuformi. Fletjið deigið þunnt út og skerið kringlóttar kökur út úr deiginu. Leggið deig ofan í hverja múffuholu og fóðrið holurnar að innan með deiginu. Hitið saman mjólk, rjóma, sykur og vanillukorn. Takið blönduna af hitanum og bætið eggjarauðum og kartöflumjöli út í og vanilludropum ef þið notið þá. Hellið blöndunni í deigbollana, ekki fylla alveg þá getur bullað upp úr. Sáldrið flórsykri ofan á. Bakið í 25 mín. eða þar til kökurnar eru vel dökkar ofan á. Bestar nýbakaðar en má frysta og hita upp við 100°C í 10-15 mín. Eggjahvítur má frysta t.d. í zip-lock poka og nota síðar, þær geymast í ár.