# Gott er að vita að deig flokkast í meigindráttum í þrjá flokka.
1. Hrært deig þar sem byrjað er á því að hræra mjúkt smjör og sykur saman í létt krem.
2. Þeytt deig þá eru egg og sykur þeytt í ljósan og léttan massa.
3. Hnoðað deig þar sem hveiti og smjör er mulið saman og vökva bætt í og deigið hnoðað saman.
# Byrjendur í bakstri eiga kannski erfitt með að átta sig á hvað útskýringarnar þýða í uppskrifturnum eins og að þeyta þar til “létt og ljóst” eða hræra þar til “ljóst og kremkennt”. Allavega hef ég oft fengið þessa spurningu. Þegar egg og sykur er þeytt saman er gott að gefa því góðan tíma, allt að 10 mín. þá er sykurinn búin að þeytast vel með eggjunum og blandan margföld í stærðinni. Kökubotnar þar sem egg og sykur eða smjör og sykur er unnið vel saman í byrjun gefa betri árangur í lokin. Hrært deig þ.e. mjúkt smjör og sykur er gott að hræra mjög vel saman og nota sleikju til að skafa niður með börmum annars lagið.
# Uppskriftir eru mis ýtarlegar og stundum er talað um að bræða smjör og kæla en ekki af hverju það er gert. Ef hella á smjörinu út í þeytta eggjahræru má smjörið ekki vera heitt því þá falla eggin og kakan lyftir sér ekki eins vel. Gott er því að bræða smjörið og kæla það þangað til það er allavega fingurvolgt, þá er öruggt með að allt verði í lagi.
# Smelluform eru mjög góð til að baka í og ef þið eruð að byrja að baka eru þau góð fjárfesting. Eitt 22” og annað 26” er ágæt byrjun. Þá er hægt að nota 22” formið þegar uppskrift kallar á 20” og 24” og 26” formið í uppskrift 24” og 28. Hérna þarf þú að athuga að þegar maður breytir um stærð þarf að huga að og líklega breyta bökunartímanum.
# Stundum á maður ekki stærðina á forminu sem gefin er upp í uppskriftinni. Þá þarf að hafa í huga að ef stærðinni er breytt breytist bökunartíminn á kökunni. Stærra form getur þýtt skemmri bökunartíma og minna form lengri.
# Það er mjög gott að ná kökum úr smelluformun sérstaklega ef þið setjið bökunarpappír á botninn. Hér er sýnt hvernig sniðugast er að setja pappírinn á botninn og smella gjörðinni utan um.

# Þegar þið lagið þeytt deig þ.e. deig þar sem byrjar er á því að þeyta egg og sykur vel saman, er gott að nota egg við stofuhita. Froðan verður miklu loftmeiri og kakan léttari. Ef þið eruð í tímahraki leggið þau í heitt vatn úr krananum í skál í 5 mínútur.
# Góðir bakarar nota gjarnan fleiri en eitt ráð þegar kemur að því að athuga hvort kakan er bökuð. Hvernig kakan lítur út, hvernig hún lyktar, hvað hún segir þér og hvernig hún er viðkomu.
Ofnar eru til dæmis misjafnir. Byrjið á að athuga hvernig baksturinn á kökunni gengur 7-8 mínútum áður en baksturstímanum ætti að vera lokið. Kakan ætti að vera tilbúin þegar deig festist ekki á prjóni sem stungið er í miðjuna á kökunni. Annað gott ráð er að “hlusta” á kökuna. Þegar kemur að lokum bökunartíma hættir hviss-hljóðið að heyrast í kökunni. Flestar kökur losna líka aðeins frá börmunum þegar þær eru tilbúnar.
# Passið vel að skálin sem á að þeyta eggjahvíturnar í sé alveg tandurhrein og helst stál eða glerskál. Smá arða af fitu ískálinni getur orðið til þess að hvíturnar stífni ekki. Gamlar plastskálar eru afleitar í að þeyta eggjahvítu í, fita vill setjast í rispurnar í skálinni og þá eiðileggur það hvítuna. Eggjahvítur verða að vera alveg aðskildar frá rauðunum, smávegis af rauðu getur eyðilagt allt. Best er að aðskilja egg sem eru köld úr ísskáp, þá er rauðan afmarkaðri frá hvítunni og betra að aðskilja þau.
# Uppskriftin kallar á mjúkt smjör og smjörið er glerhart í ísskápnum. Gott ráð er að raspa það á rifjárni eða sneiða með ostaskera það magn af smjöri sem þarf í uppskriftina.
# Það er mikið atriði að lesa vel yfir alla uppskriftina áður en byrjað er að baka. Síðan skulið þið taka allt til sem á að fara í uppskriftina. Sumum finnst gott að raða hráefninu upp í þeirri röð sem á að nota það. Farið síðan yfir tímann sem gefinn er í baksturinn. Það er ekki gaman að lenda í tímaþröng og kakan ekki tilbúin í ofninum.
# Fyrir þá sem vilja ná sem bestum árangri í bakstrinum er ekki alveg sama hvernig hveiti eða sykur er notað í kökur. Það er um að gera að kynna sér hinar mismunandi tegundir. Caster sugar (baking sugar) sem fæst í Costco er afbragð í allan fínan bakstur og marensa. Hann er fínt malaður og blandast því fyrr saman við eggin eða sykurinn.
# Margir eru óöruggir á því á hvaða rim kakan á að vera í ofninum ( þ.e.a.s. þegar ekki er unnið við blástursofn). Reglan er sú að allar kökur td. formkökur sem bakast við vægan hita 175°C eða minna, bakast á neðstu rim. Bökur eru líka bakaðar á neðstu rim svo botninn bakist vel og allar kökur sem eru með sykraðan yfirflöt. Brauð sem eru lengi í ofninum eru oftast bökuð neðarlega í ofninum en brauðbollur á miðrim. Aðrar kökur sem eru með hærri hita og eru 30 mínútur eða skemur í ofni er best að baka í miðjum ofni og ef þið eruð óörugg, er gott að fylgjast vel með kökunni í ofninum og færa hana, eða breiða álpappír yfir hana, ef hún er að dökkna mikið. Annars er langbest að baka allar kökur á blæstri að marens undanskildum, blástur jafnar hitann í ofninum og skilar betri lyftingu á kökunni.