Spænsk kartöflusúpa með serranó-skinku

Spænsk matargerð er engu lík og spánverjar elska að borða góðan mat. Ef nefna á hvaða krydd og matur einkenna spænska matargerð mætti til dæmis nefna hráskinkuna, saffran, paprikuduft, bæði reykt og sætt, möndlur, sjerrý og sjerrýedik. Matargerð spánverja gengur út á gott hráefni og einfalda matargerð og þeir eru ekki uppteknir af því að skreyta matinn heldur vilja láta hann líta út eins og mat. Hér er einföld uppskrift að kartöflusúpu. Hún er óvenjuleg og verður fulltrúi fyrir spánska matargerð.

4 msk. olía

1 dl afhýddar möndlur

4 hvítlauksgeirar, saxaðir

50 g serranó-skinka

700 g kartöflur, afhýddar og skornar í munnbitastærð

1 líter kjúklingasoð

¼  tsk. saffran

sjávarsalt og nýmalaður pipar

2 tsk. sjerríedik eða annað gott sem þið eigið

góður slatti fersk söxuð steinselja

Hitið 2 msk. olíu í meðalstórum potti og steikið möndlur við meðalhita í u.þ.bl. 5 mín. Bætið hvítlauk í síðustu mínútuna. Veiðið möndlur og hvítlauk upp úr og setjið til hliðar. Hækkið hitann og steikið skinkuna í nokkrar mínútur, bætið þá kartöflum út í og steikið aðeins áfram. Hellið kjúklingasoðinu út í og komið suðunni upp. Malið möndlur og hvítlauk í matvinnsluvél eða morteli, takið 2 msk. af maukinu frá og setjið restina út í súpuna. Takið 2 msk af súpunni og setjið í skál ásamt saffraninu og látið bíða í 1 mínútu, bætið síðan í pottinn. Lækkið hitann þegar suðan er komin upp og látið súpuna sjóða við meðalhita í 35 mín. 

Smakkið súpuna til með salti og nýmöluðum pipar. Merjið svolítið af kartöflunum með spaða eða stórri skeið. Bætið sjerríediki í. Smakkið til. Hellið í súpuskálar og setjið svolítið af möndlunum og ferskri steinselju ofan á. Uppskriftin dugar fyrir 2 svanga annars 3-4.

Posted by

Við í Salt Eldhúsi erum miklir sælkerar og erum sífellt að prófa okkur áfram í matargerð og að skapa nýja rétti. Ég er annar eigandi og framkvæmdastjóri Salt Elhúss ehf, kennslueldhúss sælkerans, fyrrum þáttagerðarmaður og síðan ritstjóri á Gestgjafanum. Hér á blogginu setjum við inn okkar uppáhalds uppskriftir.

Leave a comment