Gulrótarkaka, gamla góða

Gulrótakökur urðu mjög vinsælar hér heima í kringum 1980 og var boðið upp á þær á hverju kaffihúsi í bænum. Þessi kaka var og er enn mikið bökuð á mínu heimili og þá gjarnan “helgarkakan”. Gulrótakakan hefur sérstakan sess hjá mörgum og er enn vinsæl og sést víða á kaffihúsum. Heimabökuð er hún guðdómleg og líka svolítið næringarík. Kremið er hinsvegar ekki eins og ég gerði áður, en það voru jöfn hlutföll af ost, smjöri og sykri. Hér er rjómaosturinn hrærður úr með svolitlum sykri, enda alveg nógu feitur og sætur til að nota sem krem. Kakan er fyrir 8-10.

150 g sykur

1 ¼ dl matarolía

3 egg, stór

1 tsk. vanilludropar

150 g hveiti

½ tsk. kanell

1 tsk. lyftiduft

½ tsk. matarsódi

¼ tsk salt

1 tsk. sítrónubörkur

250 g gulrætur, rifnar fínt niður

60 g rúsínur

50 g hnetur eða möndlur, saxaðar

Hitið ofninn í 170°C. Setjið sykur og olíu í hrærivélaskál og þeytið vel saman. Bætið eggjum í einu í einu og hrærið mjög vel saman. Setjið öll þurrefnin í skál, hveiti lyftiefni og krydd. Setjið sítrónubörk, gulrætur, rúsínur og hnetur í aðra. Blandið nú öllu, eggjamassa, þurrefnum og gulrótablöndunni saman með sleikju. Setjið pappír á botninn og berið olíu á barmana á 20-22 cm breiðu formi og hellið deiginu í það. Með 20 cm formi verður kakan há og glæsileg en er líka flott að hafa hana í örlítið stærra formi, bara eftir því sem þið eigið til. Bakið kökuna í 50 mín, reynið að fylgjast með henni síðustu mínúturnar og takið hana úr ofninum um leið og hættir að heyrast “hviss” hljóð í henni. Þá verður hún mjög djúsí. Látið kökuna kólna og smyrjið síðan kreminu yfir kökuna, Skreytið e.t.v. með söxuðum hnetu eða pistasíukjörnum. 

Krem:

200 g rjómaostur

80 g flórsykur

Hrærið vel saman. 

Posted by

Við í Salt Eldhúsi erum miklir sælkerar og erum sífellt að prófa okkur áfram í matargerð og að skapa nýja rétti. Ég er annar eigandi og framkvæmdastjóri Salt Elhúss ehf, kennslueldhúss sælkerans, fyrrum þáttagerðarmaður og síðan ritstjóri á Gestgjafanum. Hér á blogginu setjum við inn okkar uppáhalds uppskriftir.

Leave a comment