Bækur Ottolengi hafa ávallt verið í uppáhaldi okkar í Salt Eldhúsi og eru mikið notaðar. Bókin Jerusalem er í sérstöku uppáhaldi og þá sérstaklega þessi lambakjötsréttur sem við fáum aldrei leið á. Ég vona að Ottolengi sé sama þó ég snari uppskriftinni yfir á íslensku. Ekki eru allir vanir að fara eftir enskum uppskriftum og þannig nær rétturinn kannski inn á fleiri heimili.
Fyrir 4-6
4 lítil eggaldin (1 kg)
4 msk. ólífuolía
salt og pipar
Kryddblanda:
1 ½ tsk. kumminduft
1 ½ msk. paprikuduft
1 msk. kanelduft
Kjötfylling:
2 msk olía
2 laukar, meðalstórir
500 g lambahakk eða nauta eða blanda af grísa og nautahakki
50 g furuhnetur
2 tsk. tómatpúra
1 tsk. sykur eða hunang
hnefafylli steinselja, söxuð
salt og pipar
Sítrónulögur í formið:
1 ½ dl vatn
1 ½ msk. sítrónusafi
1 tsk. sykur
1 tsk. tamarindpaste (má sleppa)
Blandið öllu saman í skál
Byrjið á því að hita ofninn í 210°C (200°C á blástur). Skerið eggaldin í tvennt eftir endilöngu og raðið þeim í fat með sárið upp. Dreypið ólífuolíu ofan á, saltið og piprið og bakið í ofninum í 20 mín. Takið eggaldin út og lækkið hitann á ofninum í 170°C (160°C blástur).

Blandið því sem fer í kryddblönduna í skál og setjið til hliðar.
Afhýðið laukinn og saxið smátt. Hitið pönnu og steikið hann við meðalhita í olíunni þar til mjúkur. Bætið helmingnum af kryddblöndunni útí laukinn þegar hann er farinn að mýkjast vel. Bætið kjöthakki á pönnuna og steikið áfram. Bætið furuhnetum, tómatpúru, sykri og steinselju út í og steikið áfram í 5 mín. Saltið og piprið og smakkið til. Setjið til hliðar.
Bætið hinum helmingnum af kryddblöndunni út í sítrónulöginn og hellið honum á botninn á ofnskúffunni með eggaldinunum. Setjið kjötblönduna ofan á eggaldinið, lokið fatinu með álpappír og bakið þetta í 50 mín. Berið fram heitt eða volgt með góðu grænu salati.
