Uppskriftin að öndinni hér er uppáhald okkar í Salt Eldhúsi. Þegar hún hægelduð eins og kennt er hérna er hún mjúk og undurgóð og nafnið vísar til þess að hún er svo mjúk að þú getur borðað hana með skeið. Við fengum uppskriftina í Bók sem heitir “Unforgettable” og hefur að geyma valdar uppskriftir matargúrúsins Paulu Wolfert. Paula skrifaði matardálka í mörg bestu blöð í Ameríku um árabil og er nú orðin harðfullorðin en þessi bók var gefin út 2017. Bókin er úrval af uppskriftum og endurminningum hennar en það finnst okkur skemmtilegustu matreiðslubækurnar. Þessi uppskrift er til á netinu á ensku og er nokkuð þekkt af sælkerum.
Öndin:
1 önd 2.2 – 2.7 kg
2 tsk. sjávarsalt
nýmalaður pipar
1 tsk. Herbes de Provence
2 laukar, skornir gróft niður
1 sellarístöngull, sneiddur
8 hvítlauksgeirar, skornir í tvennt
2 lárviðarlauf
2 msk. fersk söxuð steinselja
1 msk. fersk saxað timian
Hitið ofninn á 245°C. Blandið salti, pipar og Herbes de Provence í skál. Hlutið öndina niður í tvennt og fjarlægið hrygginn, klippið fremstu vængstubbana af til að nota í sósu og takið líka hrygginn til hliðar í sama tilgangi. Nuddið kryddblöndunni á fuglinn. Setjið lauk, sellerí, hvítlauk, lárviðarlauf, steinselju og timian í ofnskúffu eða ofnfast fat. Leggið öndina ofan á grænmetið með skinnhliðina upp. Bakið þetta við háan hita (245°C) í 10 mín. Lækkið hitann í 135°C, setjið lok eða álpappír ofan á öndina og bakið hana síðan í 3 klst.
Sósan:
2 msk. olía
vængstubbar og hryggurinn af öndinni, skerið hann í tvennt
1 laukur, skorinn í tvennt og sneiddur
1 msk. tómatpúra
120 ml (1 ¼ dl) hvítvín
9 dl vatn
1 msk. kjúklingakraftur
225 g góðar grænar ólífur (Hyalin Skólavörðustíg)
¼ tsk. Herbes de Provence

Finnið góðan meðalstóran pott og steikið hrygginn og vængstubbana í heitri olíu góða stund. Bætið lauk í pottinn og látið hann brúnast vel. Bætið tómatpúru og steikið saman 2-3 mín. Hellið hvítvíni út í og látið suðuna koma upp, bætið þá vatni í og látið síðan allt sjóða í 30 mín með loki og aðrar 30 mín án þess að hafa lok á, samtals í klukkutíma. Þetta á að sjóða þar til u.þ.bl. 3 dl eru eftir. Sigtið beinin frá og setjið sósuna í annan pott.
Til að klára:
Ef þið viljið hafa öndina dekkri og húðina stökka er gott að setja hana örstutt undir grill áður en hún er tekið úr ofninum, ég geri það gjarnan. Skerið hvern hluta af öndinni í tvennt og setjið á fat, haldið heitu. Gott að vera búin að hita fatið. Sigtið grænmetið sem öndin lá á og takið safann sem kom af henni frá og hellið í skál. Fleytið það mesta af fitunni ofan af og hellið kjarnmiklu soðinu út í sósuna. Smakkið til og sjóðið e.t.v. enn meira niður ef þið viljið fá sósuna sterkari. Fjarlægið steinana úr ólífunum og bætið þeim í sósuna. Ólífurnar gera gæfumuninn í bragðinu. Þykkið með sósuþykki ef ykkur finnst sósan of þunn. Hellið svolitlu af sósunni yfir öndina og raðið nokkrum ólífum á hana líka. Berið fram með flottum kartöflum t.d. Hasselbac eða kartöflu fondant, hér annarstaðar á blogginu og smjörsoðnum gulrótum.