Nú er óðum að bókast á pylsunámskeiðið hjá okkur sem verður í mars. Á námskeiðinu gerum við allskyns pylsur frá grunni meðal annars úr kjúklinga, grísa og lamba og nautakjöti og kryddum eftir kúnstarinnar reglum. Við gerum lauksósu og kartöflumús til að hafa með pylsunum svo við getum smakkað almennilega. Til eru ótal uppskriftir af því að matreiða pylsur og hér er ein mjög djúsí. Nú er hægt að fá mjög gott óáfengt rauðvín í stórmörkuðum sem er gott að eiga í ísskáp og hella slurk í sósurnar sem gerir þær alveg eðal.
Fyrir 3-4
2 msk. olía
2 msk smjör
2 rauðlaukar, afhýddir, skornir í tvennt og sneiddir
2 -4 skalottlaukar (eftir stærð) afhýddir, skornir í tvennt og sneiddir
2 msk.balsamedik
2 tsk. púðursykur eða hlynsíróp
8 ferskar pylsur, má vera hvað sem er grísa, lamba eða kjúklingapylsur
1 ½ dl vatn + kjúklingakraftur
1 ½ dl rauðvín
Hitið ofninn í 200°. Setjið pylsurnar í ofnfast fat og bakið þær í ofninum í 20 mín eða þar til þær eru farnar að taka lit. Á meðan pylsurnar eru að eldast hitið þið olíu og smjör á pönnu og steikið rauðlauk og skalotlauk þar til hann fer að verða fallega brúnaður, þetta getur tekið allt að 20 mínútur, passið að hafa meðalhita. Bætið balsamediki og sykri í og steikið áfram í 5 mín. Hellið vatni + kjúklingakrafti og rauðvíni út í laukinn og látið þetta malla saman í 10-15 mín eða þar til sósan fer að þykkna. Setjið pylsur út í og veltið þeim upp úr sósunni. Berið fram með karföflumús eða maukuðu blómkáli.