Nú fæst ferskt Íslenskt blómkál í verslunum og um að gera að nota tækifærið og gera heimalagaða súpu. Þessi súpa er ein af þeim góðu súpum sem við bjóðum nemendum upp á í matarhléi á baksturs- og brauðnámskeiðum. ´Kryddið í súpunni passar mjög vel við blómkálið og ekki einu sinni hugsa um að sleppa því að rista það því það gefur því kraftinn og bragðið. Stundum steikjum við beikon og setjum ofan á súpuna, svona eins og Frakkar gera gjarnan en oft búum við til “dukkah” sem er Egypsk möndlu- og kryddblanda. Hvorutveggja er gott.
Fyrir 6
1 laukur, saxaður
20 g smjör
2 msk. olía
2 tsk. kóríanderfræ
1 meðalstór kartafla, flysjuð og skorin í teninga
1 blómkálshaus, meðalstór, brytjaður niður
1.2 lítrar vatn
2 msk. grænmetiskraftur eða 2 teningar
1 dl rjómi
Steikið lauk í blöndu af smjöri og olíu það til hann fer að verða glær. Ristið kóríanderfræ á þurri pönnu þar til þau eru farin að ilma, þetta er gert til að fá meira bragð af þeim, steitið þau í morteli eða í kryddkvörn. Bætið kartöflum og möluðum kóríanderfræjum út í laukinn og steikið saman í 2-3 mín. Bætið blómkáli út í og síðan vatninu og grænmetiskraftinum. Látið þetta allt sjóða í 20 mín. Takið hluta af blómkálinu frá og saxið gróft. Maukið það sem er í pottinum saman, bætið rjóma í. Smakkið til með salti og pipar. Bætið söxuðu blómkáli út í og berið fram, annað hvort með steiktum beikonsneiðum eða stráið “Dukkah” ofan á. Uppskrift að því hér að neðan.
Dukkah – krydd og hnetublanda
2 msk. sesamfræ
50 g ósaltar pistasíuhnetur eða möndlur
2 msk. kumminduft
2 msk. kóríanderduft
2 tsk. sumac (má sleppa)
sjávarsalt
steinselja, þurrkuð eða fersk söxuð
Ristið sesamfræ og pistasíur á þurri pönnu í u.þ.bl.4-5 mín eða þar til það fer að ilma og taka lit. Malið í matvinnsluvél eða kaffi/kryddkvörn ásamt þurrkryddum. Getið líka notað mortel. Smakkið til með sjávarsalti. Bætið steinselju út í. Geymist í mánuð í þéttu íláti í ísskáp. Berið fram með ólífuolíu og góðu brauði, líka gott að strá yfir súpur t.d. blómkálssúpu.