Fersk tindabikkja (skötubörð) með kartöflusalati og rouille-sósu

Fersk tindabikkja (skötubörð) hefur ekki mikið verið á borðum landsmanna þó staðreyndin sé sú að hún veiðist við Íslandsstrendur. Flestir hafa þó smakkað hana kæsta. Mér skilst á fisksalanum okkar í Salt Eldhúsi, að mjög erfitt sé að roðrífa þennan fisk og það þurfi að gera strax eftir að hann er veiddur og hefðin ekki nógu sterk fyrir hráefninu að sjómenn sjái hag í því. Í Evrópu er sterk hefð fyrir að borða þessa tegund af fisk og þykir hann mikið lostæti. Við höfum keypt ferska tindabikkju frosna í Fiskbúðinni á Sundlaugaveginum og erum að sögn fisksalans þau einu ásamt Sveini Kjartansyni  matreiðslumeistara sem erum að kaupa hana. Allt verður til alls fyrst og hér er allavega sumarleg og gómsæt uppskrift að þessu spennandi hráefni. 

Fersk tindabikkja með kartöflusalati og rouille-sósu

800 g kartöflur

5 fersk tindabikkjubörð

1 skalotlaukur, afhýddur og skorinn í þunnar sneiðar

6 msk. rouille –sósa (sjá hér að neðan)

olía

steinselja eða dill

2 msk. kapers (má sleppa)

Sjóðið kartöflurnar, kælið og skrælið. Skerið þær í sneiðar og setjið í skál ásamt skalotlauk og 6 msk. af rouille sósunni. Blandið varlega saman. Setjið á fat.

Sjóðið tindabikkjuna í vel söltu vatni í 10 mínútur ( eins og vatn til að sjóða pasta, “salt eins og Miðjarðahafið”) takið fiskinn uppúr og látið kólna lítillega. Skafið fiskinn frá brjóskinu og setjið á disk. Venjulega er sú hlið á fisknum  fallegri sem snýr að brjóski svo ég læt hana snúa upp. 

Raðið fisknum ofan á kartöflurnar, sáldrið olíu steinselju og kapers yfir. Berið fram með rouille-sósunni. Ef þið eigið pikklaðan rauðlauk er fallegt að setja hann í kringum kartöflurnar. Malið svartan pipar yfir. 

Rouille –sósa

1 eggjarauða

1 lítill hvítlauksgeiri, marinn

1 tsk. paprika

örlítið af saffrandufti (má sleppa)

örtítið af chilidufti

½ tsk. salt

1 tsk. sinnep

2 dl olía, má vera hvaða olía sem er

sítróna

Setjið allt nema olíuna og sítrónusafa í skál. Hellið olíu út í smátt og smátt og hrærið stöðugt í með písk á meðan. Sósan verður þykk. Bætið sítrónusafa í eftir smekk, ég set vanalega u.þ.bl. 1 msk. Smakkið til með saltinu líka. Þessi sósa er í raun kryddað aioli og er mikið notað með fiskréttum í Suður- Frakklandi. Mér finnst hún reyndar bara frábær með öllu. 

Posted by

Við í Salt Eldhúsi erum miklir sælkerar og erum sífellt að prófa okkur áfram í matargerð og að skapa nýja rétti. Ég er annar eigandi og framkvæmdastjóri Salt Elhúss ehf, kennslueldhúss sælkerans, fyrrum þáttagerðarmaður og síðan ritstjóri á Gestgjafanum. Hér á blogginu setjum við inn okkar uppáhalds uppskriftir.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s