Hér er uppskrift að kjúklingabringum elduðum í flauelsmjúkri tómatsósu. Þessi réttur hefur fylgt okkur mjög lengi og er alltaf jafn yndislega ljúffengur. Hann var upprunalega fenginn á veitingastað í Flórens sem hét Ottorino. Ítalir nota gjarnan vín í matargerð enda nóg til af dásamlegum vínum þar Í landi. Ég á ekki alltaf hvítvín en ég á alltaf flösku af matarvíni í ísskápnum sem gott er að grípa í. Það fæst í flestum stórmörkuðum. Ég hef notað þurrt vermút (Martini dry) í spariútgáfu og gefur það mjög góða fyllingu.
fyrir 4-5
4 kjúklingabringur
100 g skinka (4 sneiðar) má vera parmaskinka eða önnur góð grísaskinka
80 g ostur, má vera hvaða ostur sem er, mjúkur rjómaostur eða fastur bragðmikill
25 g hveiti
1-2 egg, fer eftir stærð
2 msk. mjólk
15 g smjör
2 msk. olía
salt og pipar
1 ½ dl hvítvín eða vatn og örlítið hvítvínsedik
2 tómatar, saxaðir eða 3-4 kúfaðar msk. niðursoðnir
2 dl rjómi
Skerið djúpan vasa í kjúklingabringuna og fyllið hana með skinku og ost. Setjið hveiti í skál. Sláið egg saman með mjólk í annari skál, fínt að nota gaffal. Bræðið smjör og olíu saman á pönnu. Veltið fylltum kjúklingabringunum fyrst upp úr hveiti og síðan eggi og setjið þær á pönnuna, saltið og piprið. Steikið bringurnar þar til þær eru farnar að taka fallegan lit á báðum hliðum, munið að lækka hitann aðeins. Malið vel af pipar yfir. Hellið nú hvítvíninu á pönnuna og látið suðuna koma upp, bætið tómötum og rjóma út í, lækkið hitann og látið réttinn malla undir loki í 30 mín. Það er ágætt að snúa bringunum við einu sinn í eldunartímanum svo þær fái jafna eldun.
Ef sósan er þunn má bæta örlítið af maizenaþykki út í, ef hún er of þykk má bæta vatni, þetta fer allt eftir því hversu háan hita þið eruð með við að elda réttinn og hvernig pönnu þið notið. Þið getið líka soðið réttinn án þess að hafa lokið á síðustu mínúturnar af eldunartímanum til að þykkja hana og gera hana kjarnmeiri. Um að gera að krydda frjálst við að smakka til í lokin, uppskriftir eru ekki til að fara eftir bókstaflega heldur hugmynd um eldamennsku og um að gera að gefa réttinum karakter sjálf.