Við fáum mikið af erlendum matgæðingum til okkar í Salt Eldhús á námskeið sem eru sniðin að því að kynna fyrir þeim íslenska matargerð. Oft skapast fjörugar umræður þar sem eldamennska er þeirra áhugamál og oft ástríða og skiptst er á leynitrixum og uppskriftum. Eitt sinn fengum við par frá Ameríku og eiginmaðurinn trúði mér fyrir því að konan hans gerði besta steikta kjúkling í heimi. Auðsótt var að fá uppskrift og hér er hún.
Fyrir 4
3 -4 kjúklingabringur, (150 g á mann)
3-4 msk. majónes
2 tsk. sinnep
1-2 hvítlauksgeirar (eftir stærð), marðir
4 msk. olía
½ dl hveiti
1-2 egg, pískuð saman á disk
2 dl rasp
Skerið kjúklingabringurnar þvert á bringuna með beittum hníf þannig að þið fáið tvær frekar þunnar steikur. Setjið þær á bretti með plasti undir og yfir og lemjið á þær með buffhamar eða trékefli þar til þær eru frekar þunnar. Hrærið majónes, sinnep og hvítlauk saman í skál og penslið kjötið með blöndunni. Geymið í 2 klst eða yfir nótt í kæli.
Dustið hveiti á kjúklingabringurnar og veltið þeim síðan upp úr eggi og síðan raspi. Steikið gullinbrúnar á hvorri hlið. Berið fram með steiktum kartöflum og salati eða soðnu grænmeti og góðu aioli.