Brúnkur geta verið jafn girnilegar og góðar og líka óspennandi og þurrar. Okkur finnst þær bestar aðeins blautar og örlítið seigar að bíta í en venjulega eru þær stútfullar af sykri til að ná þeirri áferð. Þessi uppskrift er með minn af sykri og dásamlegu súkkulaðibragði. Það sem þarf að passa er við að gera deigið er að ofhræra og ofbaka þær ekki og síðan er gott “trix”að setja þær nýbakaðar í ísbað. Þannig verða þær fullkomnar. Síðan er góð fjárfesting að kaupa vanilluextrakt, hann er bragðmeiri og skilar sér alla leið en það á reyndar við um allt hráefni þ.m. t. súkkulaði.
Fullkomnar brúnkur
16 bitar
100 g 70% súkkulaði
120 g smjör
140 g sykur
1 tsk. gott vanilluextrakt (eða vanilludropa)
örlítið salt
2 stór egg, köld
65 g hveiti
Hitið ofninn í 200°C, hér er ekki átt við blástur. Bræðið súkkulaði og smjör saman í vatnsbaði, blandan á að verða vel heit. Takið af hitanum. Setjið sykur, vanillu og salt út í súkkulaðiblönduna og sláið saman með sleif þar til vel samlagað, bætið þá eggjum í einu í einu og sláið vel saman. Sigtið hveiti út í og sláið nú deigið saman með sleifinni þar til það er mjúkt og glansandi. Setjið bökunarpappír á botn og upp með hliðum á 20 cm ferköntuðu formi. Jafnið deiginu í formið. Bakið kökuna í 20 mínútur, hún á að vera þurr ofan á en ennþá blaut ef maður stingur í hana með tannstöngli. Setjið slatta af ísmolum og 2 cm ískalt vatn í ílát sem er stærra en kökuformið og auðvelt að setja það ofan í. Leggið kökuna í ísbað en passið að það fari ekki vatn á hana, bara upp með forminu. Látið kökuna vera þar til hún er næstum köld. Takið hana úr forminu og skerið í litla bita