Saltfiskur er okkar uppáhald. Við í Salt Eldhúsi vöndumst því að fá soðin saltfisk með kartöflum, rófum og smjöri í hádeginu á hverjum laugardegi í uppvextinum. Mér fannst stemming í því þegar pabbi setti fiskinn í bleyti á föstudagskvöldi og vissi að hann hlakkaði til að njóta hans daginn eftir, þá var fiskurinn nær eingöngu seldur þurrkaður í pakka. Við lumum á nokkrum góðum uppskriftum af þessu ljúfa hráefni og hér er ein einföld. Sósuna má líka nota í að henda afgöngum af kartöflum og saltfisk út í, það er mjög gott.
fyrir 4
600-800 g saltfiskhnakkar, skornir í passlega bita
3 msk. olía
6 msk. smjör
1 -2 skalotlaukar, fer eftir stærð, saxaðir smátt (eða ½ laukur)
2 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt
180 g konfekttómatar, skornir í tvennt eða 1 dós tómatar, (cherry tomatoes bestir)
3 msk. þurr vermouth eða hvítvín
chiliflögur eftir smekk
lítil handfylli fersk söxuð steinselja (má sleppa en er fallegt og hollt)
nýmalaður pipar eftir smekk

Þerrið saltfiskinn á eldhúspappír. Bræðið 2 msk. olíu og 2 msk. smjör á rúmgóðri pönnu þar til smjörið freyðir og steikið fiskinn á báðum hliðum, u.þ.bl. 2 mínútur á hvorri hlið. Færið fiskinn á disk og haldið heitum. Bræðið 1 msk. af olíu og 4 msk. af smjöri og látið brúnast örlítið, lækkið hitann og steikið skalottlauk í brúnuðu smjörblöndunni. Passið að smjörið hitni ekki of mikið, lyftið pönnunni af hitanum annars lagið til að stjórna hitanum og hreifið hana til svo allt brúnist vel., bætið hvítlauk út í og látið hitna með í 30 sek. Bætið tómötum á pönnuna, gott er ef þið notið tómata úr dós að sigta það mesta af safanum frá og nota bara tómatana. Þið getið fryst safann og notað í eitthvað seinna. Látið þetta malla í u.þ.bl. 5 mínútur eða þar til sósan er girnileg, bætið vermuth út í, smakkið til með salti, pipar og chiliflögum. Bætið nú saltfisknum á pönnuna og látið hann malla með í sósunni þar til hann er eldaður í gegn. Gott er að maka sósunni ofan á hann. Stráið steinselju yfir og berið fram t.d. með kartöflum.