Brauð með berjum, osti og rósmarin

Fljótlegt og gómsætt brauð, hljómar það ekki vel ? Þessi uppskrift í örlítið breyttri mynd kemur frá Gill Meller, kennara í River Cottage matreiðsluskólanum í Bretlandi. Hann er vel þekktur þar í landi og hefur m.a. unnið til verðlauna fyrir matreiðslubækur sínar sem að okkar mati eru stórgóðar. Bretar og Írar eru þekktir fyrir sódabrauðin sín og kosturinn við þau er að hægt er að gera þau með stuttum fyrirvara. Hér er ekki notaður matarsódi heldur lyftiduft sem er líka gott. Uppskrift Gill inniheldur geitaost, ristaðar heslihnetur og sólber en við erum búin að nota allskonar ost, hnetur og ber og alltaf er brauðið ótrúlega gott. Passar vel með mildri súpu. Eitthvað nýtt í klúbbinn ?

250 g hveiti

2 kúfaðar tsk. lyftiduft

1 tsk. salt

150 g geitaostur, fetaostur eða blá-/hvítmygluostur, skorin í bita

50 g valhnetur, pecanhnetur eða heslihnetur, saxaðar gróft

100 g ber, mega vera fersk eða frosin, t.d. sólber, rifsber, bláber, skógaber

2 rósmarin kvistir, nálarnar saxaðar eða ½ -1 tsk. þurrkað

1 dl mjólk

1 dl súrmjólk eða Ab-mjólk

Hitið ofninn í 200°C. Setjið hveiti, salt og lyftiduft í rúmgóða skál. Bætið 2/3 af ostinum og 2/3 af hnetunum út í, geymið afganginn til að strá yfir seinna. Blandið berjum, skerið þau í tvennt ef þau eru stór eins og skógarberin, rósmarin og vökvanum í og hrærið saman í samfellt deig. Setjið bökunarpappír á ofnplötu og formið deigið á pappírnum í kringlótta köku u.þ.b. 20 cm í þvermál. Stráið því sem eftir er af osti og hnetum yfir. Skerið, djúpan kross í miðjuna, það er gert svo brauðið lyfti sér betur í ofninum. Bakið brauðið í 30-35 mín eða þar til brauðið er búið að lyfta sér fallega og er gullinbrúnt á litinn. Berið fram volgt með smjöri.

Ef þið notið heslihnetur er mjög gott að hita þær í ofni eða rista á þurri pönnu og taka flusið utan af. Það gerbreytir bragðinu til hins betra.

Brauðið er best nýbakað, þá er skorpan svo stökk og góð. Hægt er að frysta brauðið og hita upp í 100°C heitum ofni í 20 mín.

Posted by

Við í Salt Eldhúsi erum miklir sælkerar og erum sífellt að prófa okkur áfram í matargerð og að skapa nýja rétti. Ég er annar eigandi og framkvæmdastjóri Salt Elhúss ehf, kennslueldhúss sælkerans, fyrrum þáttagerðarmaður og síðan ritstjóri á Gestgjafanum. Hér á blogginu setjum við inn okkar uppáhalds uppskriftir.

Leave a comment