Hér er uppskrift að dásamlegri eggjahræru sem er vel krydduð. Hún er svo góð að búið er að líma hana inn á skápinn í eldhúsinu svo allir heimilismeðlimir geti gert sér eitthvað gómsætt með lítilli fyrirhöfn. Upprunalega var uppskriftin með tofu og fyrir þá sem ekki borða egg er það alveg gráupplagt.
4 egg
2 msk. vatn
½ tsk. salt
nýmalaður pipar
2 msk. olía
1 lítill laukur, saxaður smátt
1 hvítlauksgeiri, saxaður smátt
chilipipar eftir smekk
1 tsk. karrýduft, garam masala eða önnur góð indversk kryddblanda sem þið eigið
1 tsk. túrmerik
1 tsk. kumminduft
fersk steinselja, söxuð (má sleppa)
Setjið egg í skál og þeytið þau létt saman með vatni, salti og pipar. Hitið olíuna á pönnu og steikið laukinn þar til hann fer að verða mjúkur, steikið hvítlaukinn með síðustu mínútuna. Bætið þurrkryddum á pönnuna og steikið þau saman í 2-3 mín. Hellið eggjablöndunni á pönnuna og lækkið hitann á minnsta straum. Eldið eggin með laukblöndunni og hrærið í allan tímann, passið að ofelda þau ekki. Stráið steinselju yfir. Berið fram með indversku brauði eða ristuðu súrdeigsbrauði með vel af smjöri. Uppskriftin dugar fyrir tvo.