Nú fer að kólna í veðri og ráð að huga að kjarngóðum súpum sem hlýja manni vel. Þessi súpa er algjör flensubani, heit af kryddum og næringu. Gaman er að nota galangal í súpuna en það fæst stundum ferskt í “Asíu-búðum” en er vel hægt að frysta. Galangal líkist engiferrót og er með ljúfkrydduðu sítrusbragði. Sítrónugras og Tom Yum paste fæst nú í flestum stórmörkuðum. Ef þið viljið fá meira ekta Thai bragð er gott að setja 4-6 límónulauf í súpuna en þau fást frosin í “Asíu-búðunum.
12 dl kjúklingasoð eða vatn og súpukraftur
3 stilkar sítrónugras,
5 cm ferskt engifer (má líka nota galangal eða bæði), sneitt fínt
4 tómatar, skornir í báta
1 límóna, börkur og safi
1 grænn chilipipar, sneiddur
2 msk. Tom Yum paste
½ dl fiskisósa
1 -2 msk. kókos- eða pálmasykur, magn eftir smekk
2 kjúklingabringur (u.þ.bl. 500 g samtals) sneiddar fínt
150 g sveppir, heilir skornir í sneiðar
½ rauð paprika, skorinn í tígla
ferskt kóríander og límónubátur sett í síðast
Setjið soð í rúmgóðan pott , Lemjið á endann á sítrónugrasinu svo allur kraftur fari örugglega í soðið, og skerið það í tvennt í miðjunni ef stilkarnir eru langir. Sjóðið sítrónugras, engifer og eða galangal, tómata, límónubörk og safa, chilipipar og Tom Yum paste saman í 20 mín. Veiðið sítrónugras upp úr eins og hægt er og sjóðið súpuna áfram með fiskisósu, kókossykri, og kjúkling þar til kjúklingur er soðinn í gegn. Þetta tekur 6-8 mín. Bætið þá sveppum og svolitlu söxuðu kóríander út í. Smakkið til, súpan á að vera sæt-súr. Ausið í skálar og setjið stilk af fersku kóríander og límónubát í hverja skál.