Glænýtt smálúðuflak er fiskur sem okkur finnst við þurfa að matreiða með virðingu. Okkur finnst alltaf einfalt best og kapers, smjör og hvítvín gera þetta dásamlega hráefni að veislumat. Hér erum við með dæmigerða smjörsósu eins og þá sem er gjarnan löguð á veitingahúsum og er undurgóð með öllum fisk.
Fyrir 4
1 gott smálúðuflak, u.þ.bl. 800 g
2 msk. smjör
1 msk. olía
Sósa:
1 msk. olía
1 hvítlauksgeiri
2 msk. kapers, ég nota þetta smáa í litlu glösunum fæst í Krónunni
1 ½ dl hvítvín
1 sítróna, helmingurinn í sneiðum
40 -50 g smjör í litlum bitum
slatti af ferskri steinselju, söxuð
Roðflettið fiskinn og skerið í passlega bita. Bræðið smjör og olíu saman og steikið fiskinn gullinn á báðum hliðum. Látið hann malla á pönnunni þar til hann er nær gegnumsteiktur, saltið og malið pipar yfir. Færið fiskinn upp á fat, mér finnst gott að hita fatið vel undið rennandi vatni, þurrka það og setja hlemm eða álpappír síðan yfir fiskinn til að halda honum heitum.
Sósa: Bætið olíu á pönnuna og steikið hvítlaukinn á vægum hita í 1 mínútu, passið hitann svo hann ofeldist ekki, þá verður hann beiskur. Bætið hvítvíni og 2 msk. sítrónusafa á pönnuna og látið sjóða niður um helming. Takið pönnuna af mesta hitanum og bætið kapers í, bætið síðan smjöri smátt og smátt saman við og hrærið í á meðan. Smakkið til með salti og nýmöluðum pipar. Nú kemur að þér að setja persónulegt mark á réttinn. Ef sósan er of súr (fer gjarnan eftir tegund af hvítvíni) er ráð að setja örlítið af hunangi eða annari sætu út í. Ef ykkur finnst magn af sósu of lítið er gott að setja örlitla rjómaslettu, u.þ.bl. 2 msk. út í, gott er jafnvel að smakka til með fiskikraft ef hann er til ef það vantar fyllingu, efstragon og dill passa líka vel. Eina sem þarf að passa er að ekki má sjóða sósu eftir að hún er kláruð með smjöri, þá skilur hún sig.
Hellið sósunni yfir fiskinn á fatinu, raðið sítrónusneiðum í kring og sáldrið steinselju yfir.
Rauðar kartöflur fara vel með þessu og þá er gott að skræla þær áður en þær eru soðnar í saltvatni, þær eru ekki eins mjölmiklar soðnar þannig og líka fallegri. Eins passar soðið spergilkál eða soðnar snittubaunir frábærlega.