Pizzaladiere – laukbaka frá Provence

Víða í Frakklandi eiga borgir sér sérstakan mat eða köku sem er einkenni borgarinnar. Í Nice í Suður-Frakklandi er þessi laukbaka allsstaðar í boði og í mörgum útgáfum. Pitsubotninn er ýmist brauðdeig, bökudeig eða smjördeig og allar útgáfur góðar. Fyrir þá sem hafa komið á “Deig” námskeiðið hjá okkur er hér komin uppskrift þar sem hægt er að nota uppskriftirnar af grunndeiginu. Pitsan er í algjöru uppáhaldi hjá okkur eigendum og hefur verið lengi. Sumarlegur og gómsætur réttur.

ólífuolía

1 kg laukur

2 hvítlauksgeirar, saxaðir

3 timiankvistir eða 1 tsk. þurrkað timian

1 rósmarinkvistur eða ½ tsk. þurrkað rósmarin

1 lárviðarlauf

2 steinseljugreinar

salt og nóg af nýmöluðum pipar

350 g smjördeig, pitsadeig eða bökudeig

50 g svartar ólífur

1-2 dósir ansjósur

Afhýðið laukinn, skerið í 4 hluta og síðan í skífur. Hitið slurk af ólífuolíu í frekar stórum potti og steikið laukinn við meðal hita. Laukurinn á ekki að brúnast heldur mýkjast vel. Bætið hvítlauk, timían, rósmarin, lárviðarlaufi og steinselju í og látið þetta allt malla saman í 30-40 mín á meðalhita með lok á pottinum. Hrærið í annars lagið svo laukurinn mýkist jafnt.

Hitið ofninn í 200°C. Rúllið deiginu út á bökunarpappír og setjið á bökunarplötu, stærð hjá mér er u.þ.bl. 28×40 cm.

Dreifið lauknum á deigbotninn, tínið burt kvista og setjið ansjósuflök og ólífur yfir. Ef ansjósuflökin eru þykk hef ég skorið þau eftir endilöngu og það er fallegt að gera rúðumunstur eins og á myndinni.  Magn af ansjósum er smekksatriði, ein eða tvær dósir, það fer eftir því hversu góðar ykkur þykir þær. Bakið í ofni í 20 mín. Berið fram með grænu salati vætt með vínargrettu.

Posted by

Við í Salt Eldhúsi erum miklir sælkerar og erum sífellt að prófa okkur áfram í matargerð og að skapa nýja rétti. Ég er annar eigandi og framkvæmdastjóri Salt Elhúss ehf, kennslueldhúss sælkerans, fyrrum þáttagerðarmaður og síðan ritstjóri á Gestgjafanum. Hér á blogginu setjum við inn okkar uppáhalds uppskriftir.

Leave a comment