Rauðkál matreitt á spennandi hátt getur það orðið að uppáhaldsmat eins og þetta salat hérna. Við bárum það fram fyrst með anda-confit sem er hægt að kaupa niðursoðið og er okkar uppáhald, passar sérstaklega vel saman. Síðan fannst okkur það bara passa með grillmat og öllu mögulegu öðru og ekki er verra að salatið er einstaklega næringarríkt.
¼ hluti rauðkál (ca 300 g)
1 appelsína (2 ef mjög litlar)
100 g ferskar döðlur
70 g fetaostur
50 g möndlur
2 msk. smjör
sjávarsalt
örlítið af ólífuolíu og smá skvetta af góðu ediki
Sneiðið rauðkálið niður mjög fínt og setjið í skál, best er að nota mandólín, það gerir salatið meira spennandi. Skerið ofan og neðan af appelsínunni og flysjið með hníf svo allt þetta hvíta skerist burt. Skerið appelsínuna í litla bita og sáldrið yfir rauðkálið, skafið safann af brettinu yfir kálið. Skerið döðlur í bita og dreifið yfir, myljið fetaost gróft og setjið yfir. Bræðið smjör á lítilli pönnu og steikið möndlur þar til þær taka lit, saltið yfir þær með sjávarsalti og hellið þeim á bretti, látið þær kólna örfáar mínútur, saxið síðan gróft og dreifið yfir. Dreypið ólífuolíu og ediki yfir og berið fram.