Fyrir 6
Franska lauksúpan á sér langa sögu. Uppruni hennar er sennilega frá tímum Rómverja. Þeir suðu lauk, sem allir gátu ræktað, og vatn saman og þótti þetta vera mettandi fátækramannamatur. Frakkar þróuðu síðan snemma uppskriftina og bættu brauði og glóðuðum osti ofan á og varð þetta vinsæll matur þar í landi. Súpan komst síðan mjög í tísku í Ameríku um 1960 þegar franska matarmenningin varð vinsæl vestra og hefur Julia Child átt þar stóran þátt.
Þetta er sígild súpa, algjör drottning að mínu mati en eins góð og hráefnið sem fer í hana ( eins og allt annað). Gott soð, smá púrtari, vel af pipar og góður ostur ofan á eins og t.d. Ísbúi gerir þessa súpu vel hæfa í matarboðið.
1 kg laukur (ca. 4 stórir, má alveg vera rúmt kíló)
3-4 hvítlauksrif, söxuð
60 g smjör
1 grein timian eða ½ tsk. þurrkað
slatti nýmalaður pipar
2 msk. hveiti
1 .5 líter gott nautasoð má líka nota grænmetissoð
1 dl púrtvín
sjávarsalt
gott snittubrauð eða Ciabattabrauð
sterkur ostur
Afhýðið laukinn og skerið hann í tvennt, skerið hvern helming í tvo hluta og sneiðið hann niður. Þetta er mikið af lauk og mikið táraflóð. Steikið laukinn og hvítlaukinn í smjörinu í um 15 mín eða þar til laukurinn er glær og aðeins farin að taka lit. Piprið vel í pottinn og látið piparinn steikjast aðeins með, mér finnst piparinn njóta sín vel með þessari aðferð. Bærið timian í. Stráið hveitinu yfir laukinn og hrærið honum saman við með sleif. Hellið öllum vökva sem á að fara í súpuna út í, fyrst smávegis og svo öllu til að hveitið fari ekki í kekki. Sjóðið súpuna í 30 mín við meðalhita, smakkið til með pipar og sjávarsalti.
Hitið ofninn á grill. Skerið brauðið niður í teninga ( það er auðveldara að borða súpuna þannig) eða sneiðar og stráið rifnum osti yfir. Grillið brauðið þar til það er gullið og girnilegt. Hellið súpunni í skálar og setjið grillað ostabrauð í hverja súpuskál. Berið fram strax.