10 stk.
Flestar þjóðir eiga sér sína brauðmenningu. Flatbrauð ýmiskonar eru gómsæt nýbökuð og vel fyrirhafnarinnar virði. Þessi uppskrift kemur frá Marokkó og passar einstaklega vel með “tagine” sem er uppskrift að hér annarstaðar á síðum Salt Eldhúss.
220 g hveiti
50 g heilhveiti
50 g fínmalað semolina
1 ½ tsk. þurrger
1 msk. sykur
1 tsk. salt
2 msk. olía
2 dl fingurvolgt vatn (37°C)
Setjið allt hráefnið í skál og hnoðið saman í samfellt deig. Þetta er mjög gott að gera í hrærivélaskál með hnoðaranum. Deigið er blautt í sér í fyrstu en gott að hnoða í vélinni góða stund (8 mín ) til að fá glúteinið til að vinna, ekki bæta hveiti út í, deigið samlagast og verður létt og mjúkt við hnoðunina. Mótið deigið í kúlu í skálinni og setjið klút yfir, látið hefast á hlýjum stað í 30-60 mín (lágmark 30 en má hefa í 60 mín).
Skiptið nú deiginu í 10 bita og hnoðið hvern þeirra í kúlu. Sáldrið semolina hveiti á vinnuborðið og fletjið hverja kúlu út í flatbrauð 10- 12 cm á breidd. Hitið pönnu og þurrsteikið brauðin á báðum hliðum. Best nýbökuð en má gjarnan frysta og hita upp síðar við 120°C í nokkrar mínútur.