Eftir grilltíðina í sumar er gott að hvíla bragðlaukana á kjöti og elda einfaldan pastarétt úr grænmeti. Þessi réttur hefur fylgt okkur lengi og er mjög einfaldur og jafn góður og gott faðmlag. Mjög gott er að nota smátómata, þeir eru sætir, hollir og góðir. Það tekur alltaf tíma að steikja eggaldin, það dregur alla olíuna af pönnunni í sig en eftir góða stund á pönnunni fer það að brúnast, það þarf bara að sýna eggaldininu þolinmæði. Rétturinn dugar fyrir 4 svanga.
1 stórt eggaldin, 2 ef þau eru mjög lítil
4 msk. ólífuolía
3 hvítlauksgeirar, sneiddir
1 tsk. oreganó
½ tsk. chiliflögur
400 g konfekttómatar eða venjulegir, saxaðir eða 1 dós saxaðir tómatar (400 g)
1 msk. kapers (gott að nota þetta smáa)
1 msk. rauðvínsedik
örlítið hunang ef þarf
salt og pipar
320 g pasta
50 g parmesanostur
nokkur basillauf (má sleppa)
Skerið eggaldin niður í litla bita. Hellið ólífuolíu á pönnu og steikið eggaldin þar til það fer að brúnast. Þú þarft stóra pönnu og þetta tekur góða stund. Bætið hvítlauk, oreganó og chiliflögum saman við og steikið áfram í 1-2 mín. Hellið tómötum, kapers, rauðvínsediki, salt og pipar eftir smekk á pönnuna og látið þetta malla saman á lágum hita í 15 mín. Smakkið til aftur, ef ykkur og finnst vanta sætu er gott að bæta örlitlu hunangi úr í, þess þarf ekki ef tómatarnir eru sætir.
Sjóðið pastað eftir leiðbeiningum, mér finnst gaman að nota penne eða eitthvað gróft skorið pasta með þessari sósu. Takið frá ¾ dl af pastavatninu þegar pastað er soðið og hellið í sósuna. Sigtið vatnið síðan frá pastanu og hellið pastanu út í sósuna á pönnunni. Blandið vel saman. Rífið parmesan ost yfir og rífið basil (ef þið eigið það) yfir líka í lokin. Piprið vel yfir allt saman og berið fram strax. Þetta dugar fyrir 4 svanga.