Breska matreiðslublaðið Delicious þekka margir matgæðingar. Þar birtist eitt sinn listi yfir þær 20 bækur sem allir matgæðingar ættu að eiga. Bók Emiko Davies Florentine var þar á meðal og í bókinni fjallar Emiko um matinn í borginni sem hún býr í og elskar, Flórens. Emico er með ferða og matarblogg en þar fann ég uppskriftina að ítalskri möndluköku sem er hér að neðan. Bragðið af kökunni er dásamlegt bragð af Ítalíu, sól, sítróna og möndlur. Kakan er sáraeinföld í framkvæmd, hráefni, skál og gaffall við hendina og kakan er tilbúin inn í ofninn.
150 g hveiti
150 g sykur
150 g smjör, brætt
1 egg
3 eggjarauður
börkur af 1 sítrónu
80 g afhýddar möndlur
2 msk. flórsykur
Hitið ofninn í 180°C (170°C blástur). Setjið bökunarpappír á botninn á 20 cm formi. Setjið hveiti og sykur í skál. Hellið smjörinu út í ásamt egginu, eggjarauðunum og sítrónuberkinum. Hrærið allt saman með gaffli. Jafnið deiginu í formið og raðið möndlunum fallega ofan á, gott að ýta þeim lítillega niður í deigið. Bakið kökuna í 25-30 mín. Takið kökuna úr forminu og setjið á kökudisk. Sigtið flórsykri ofan á. Eggjahvítur má frysta t.d. í zip-lock poka og nota síðar, þær geymast í ár.
