Í Salt Eldhúsi höfum við boðið erlendum ferðamönnum, sem koma á námskeið til okkar upp á nýbakað rúgbrauð. Í öllum tilfellum slær brauðið í gegn og það skemmtilega er að fólk hefur ekki smakkað neitt þessu líkt áður. Fræðsla um hverabrauð, sýnikennsla á hvernig á að baka og uppskriftina fá þeir með sér og við höfum fengið þó nokkra pósta frá fólki sem hefur bakað brauðið þegar heim var komið og gefið heimafólki sínu að smakka. Lítið mál er að baka rammíslenskt rúgbrauð og hér er uppskriftin. Ég nota gjarnan næturnar í baksturinn, set brauðið inn klukkan ellefu að kvöldi og það er tilbúið næsta morgun.
Uppskriftin gerir 3 brauð
460 g rúgmjöl
260 g heilhveiti
3 tsk. salt
3 tsk. matarsódi
1 líter súrmjólk eða Ab-mjólk
350 g sýróp

Hitið ofninn í 100°C, 90°C ef þið notið blástur. Finnið mjög stóra skál eða pott ef þið eigið ekki stóra skál og blandið þurrefnunum í hana og hrærið saman. Hellið súrmjólkinni og sýrópinu út í mjölið og hrærið allt saman með sleif. Skolið og smyrjið síðan 3 x eins-líters fernur að innan með matarolíu. Skiptið deiginu í fernurnar, þær eiga að vera hálf fullar. Lokið fernunum með klemmu. Setjið fernurnar upp á rönd í ofninn, ekki láta fernurnar snerta botninn, látið grind á hann svo lofti um fernurnar. Bakið í 9 klukkutíma. Ég skipti brauðinu í passlega bita og set í frysti.