Nú eru námskeiðin að hefjast hjá okkur aftur eftir jólafrí sem var heldur langt að okkar mati. Við notuðum tímann vel og margar uppskriftir urðu til. Hér kemur ein dásamleg eplakaka fyrir helgina. Við erum alltaf veik fyrir eplakökum hér í Salt Eldhúsi sérstaklega þessa dimmu vetrarmánuði. Lyktin af nýbakaðri eplaköku er engu lík og þessi hér sem við gefum uppskrift af í dag er með yndislegri karamellusósu. Við notum súr epli í hana, helst Granny Smith, það gerir svo góða samsetningu við sæta kökuna og sósuna.
12 sneiðar
2 stór epli, gott að nota súr epli t.d. Granny Smith
2 stór egg (65-70 g með skurn) eða 3 lítil
270 g hveiti
220 g sykur
½ tsk. salt
¾ tsk. matarsódi
1 ½ dl matarolía
2 tsk. vanilludropar
¾ dl eplasafi
70 g pecanhnetur, saxaðar gróft
Stillið ofninn á 175°C eða 170°C á blástur. Afhýðið eplin og kjarnhreinsið og skerið í bita í munnbitastærð. Þeytið eggin saman í hrærivél eða með þeytara þar til þau eru ljós og loftmikil, þetta tekur u.þ.bl. 6-8 mín. Blandið þurrefnum saman í skál, þ.e. hveiti, sykri, salti og matarsóda og hrærið saman svo blandist. Hellið olíunni út í eggin á meðan vélin gengur. Stoppið vélina og bætið eplasafa, eplum og þurrefnum út í eggjahræruna og blandið öllu vel saman með sleikju. Fóðrið botn á 26 cm breiðu smelluformi með bökunarpappír. Gott að smella gjörðinni utanum pappírinn. Setjið deigið í formið og bakið þetta í 40 mín (ef þið notið minna form t.d. 24 cm þarf að lengja bökunartímann í 50). Hellið helmingnum af sósunni yfir og berið síðan þeyttan rjóma og karamellusósu fram með henni.
Karamellusósa:
120 g púðursykur
50 g smjör
1 ¼ dl rjómi
1 tsk. vanilludropar
Setjið púðursykur, smjör og rjóma ó pott og látið sjóða saman í 3-4 mín. Takið af hitanum og bætið vanilludropum út í.