Hér kemur einn af uppáhaldsréttum okkar. Upphaflega kom hann til þegar við vorum að finna nýjar leiðir að nota hreindýrahakk en það má gjarnan nota þessa uppskrift með nautahakki. Hreindýrahakkið er svo dásamlega bragðmikið að óþarfi er að nota mikil af kryddi en þegar nautahakk er notað er gott að krydda svolítið. Þá nota ég herbes de provence ca. 1 tsk og eitthvað annað gott sem leynist í kryddskúffunni og passar með því. Uppáhaldsréttir eru gjarnan réttir sem er einfalt er að laga og eru síðan settir í ofninn í góðan tíma.
Fyrir 4
3 msk. olía
2 stórir laukar, saxaðir fínt
600 g gott nautahakk (líka mjög gott að nota hreindýrahakk)
450 g tómatar eða 1 dós niðursoðnir, saxaðir
1 tsk. chiliduft
salt og nýmalaður pipar
2 bökunarkartöflur
200 g rifinn ostur
Hitið olíu á pönnu og steikið lauk þar til hann er farinn að verða glær og ilmandi. Bætið hakki á pönnuna og brúnið vel. Bætið tómötum, chili, salti og pipar í og látið malla í 5 mín. Stillið ofninn á 180°C (175°C á blástur) hellið kjötblöndunni í rúmgott ofnfast fat, gott að hafa það rúmgott því kartöflurnar eru svo góðar ef þær eru nær því í einu lagi. Skerið kartöflurnar í þunnar skífur og raðið þeim ofan á kjötið, þær eiga að vera í einu lagi en meiga þó liggja aðeins ofan á hver annari. Stráið osti yfir og lokið síðan fatinu með álpappír. Látið þetta bakast í 45 mín, takið álpappírinn af og hækkið hitann örlítið. Látið bakast í 15 mín í viðbót eða þar til osturinn hefur brúnast.