Nú er rétti tíminn fyrir eitthvað ljúfengt og nærandi. Mér finnst við hér heima ekki nota rauðkál nógu mikið hrátt en ef það er þunnt sneitt er það góður grunnur í ljúft salat. Mjög gott er að nota mandólín í að sneiða kálið, ódýrt mandólín fékk ég í Pro-Gastro í Kópavogi. Ég nota gulrætur, papriku og radísur í salatið en það má vera hvaða grænmeti sem er eftir smekk. Hér erum við með japanska aðferð að steikja kjúkling sem þeir kalla “Katsu” og rauðkálssalatið er með dásamlegri asískri salatsósu. Salatið passar líka vel með grillmat. Ekki er nauðsynlegt að nota panko rasp en það er gjarnan notað í Japan og er loftmeira en venjulegt rasp og gefur skemmtilega áferð. Raspið fæst í Asíu-búðum.
Fyrir 4
6 kjúklinga efrilæri úrbeinuð (ca. 150 g á mann)
1 ½ dl kartöflumjöl eða maizena-mjöl
1-2 egg (fer eftir stærð), slegin sundur í skál
2 ½ dl panko rasp (eða bara venjulegt rasp)
1-2 msk. sesamfræ
salt og pipar
olía til að steikja upp úr
Hitið ofninn í 200°C. Þerrið kjötið með eldhúspappír og veltið upp úr kartöflumjöli eða maizena. Hitið olíu á pönnu. Blandið raspi og sesamfræjum saman í skál. Veltið kjúkling upp úr eggjahræru og síðan raspi. Steikið kjúklinginn gullinn á báðum hliðum. Gerið þetta í tvennu lagi svo þið fáið bitana fallega brúnaða. Setjið brúnaða bitana síðan alla í ofnskúffu og klárið að elda þá í ofninum í 10 mín. Setjið salat á hvern disk. Sneiðið kjúklinginn niður og raðið ofan á salatið.
Salat:
½ rauðkálshöfuð eða kínakál (kínakál þarf ekki að sneiða á mandolíni, bara skorið þunnt niður með hníf)
2 gulrætur
1 paprika
nokkrar radísur
Sneiðið allt sem fer í salatið niður mjög þunnt, gott er að nota mandólín. Hellið saltsósu yfir og blandið saman.
Salatsósa:
3 msk. olía
1 msk sesamolía
4 msk. hrísgrjónaedik
3 msk. hunang
1 msk. sojasósa
setjið allt sem fer í sósuna saman í skál og blandið vel saman.
Panko rasp er gjarnan notað í japanska matargerð og fæst í Asíu-búðum.