Námskeiðin okkar í Marokkóskri matargerð eru mjög vinsæl enda Marokkó þekkt fyrir matarmenningu sína um heim allan. Þar í landi eru gjarnan notaðir leirpottar sem eru kallaðir “tagine” til matargerðar. Í þessum pottum eru matreiddir dýrindis kjöt-fisk- og grænmetisréttir þar sem þeir nota spennandi kryddsamsetningar og gjarnan þurrkaða ávexti, sér í lagi með lambakjöti. Hér er uppskrift að einum slíkum lambakjötsrétt, hægt er að notast við rúmgóðan pott eða pönnu til að elda hann og árangurinn svíkur engan.
Fyrir 4-6
1 tsk. kanell
1 tsk. malaður svartur pipar
½ tsk. chili eða cayennepipar
2 tsk. paprika
2 tsk. engiferduft
1 tsk. turmerik
1 laukur, saxaður
800 g beinlaust lambakjöt, ég nota oft lambaprime skorið í þykka bita
2 msk olía
2 hvítlauksgeirar, saxaður
1 dós tómatar (400 g)
½ tsk. saffran, lagt í bleyti í 1 msk. vatn í 10 mín
50 g apríkósur
50 g sveskjur
30 g ljósar rúsínur eða dökkar
3 dl lambasoð
Setjið allt þurrkryddið í skál og notið helminginn af því til að velta kjötinu upp úr, setjið til hliðar í 2 klst eða yfir nótt.
Hitið 2 msk. af olíu í rúmgóðum potti eða djúpri pönnu og steikið laukinn þar til hann fer að verða mjúkur, bætið þá helmingnum af kryddblöndunni sem þið hélduð eftir ásamt hvítlauk út í og steikið áfram í ca. 2 mín. Takið laukinn af pönnunni og setjið hann á disk til hliðar. Bætið nú meiri olíu á pönnuna og steikið kjötbitana þar til þeir brúnast, saltið létt yfir. Bætið nú laukblöndunni og öllu öðru sem fer í réttinn á pönnuna. Látið suðuna koma upp, lækkið þá hitann og látið réttinn malla áfram í klukkustund. Smakkið til með salti og pipar.
Berið fram með góðu brauði og kús-kús.