Eggjabrauð eða holubrauð er oft eldað fyrir starfsfólk Salt Eldhúss í hádeiginu. Þetta gómsæta brauð hefur fylgt mér frá því ég var unglingur og stendur alltaf fyrir sínu. Brauðið er mjög gott á einfaldan máta bara með osti en er alltaf hægt að gera matarmeira með því að kíkja eftir afgöngum í ísskápinn. Nú eru margir að vinna heima og er aldrei ofsagt hversu mikilvægt er að borða ljúffengan og mettandi hádeigismat, það heldur manni við efnið og kemur í veg fyrir óþarfa nart seinnipartinn.
Fyrir 2
2 stórar brauðsneiðar, súrdeigsbrauð er mjög gott í þetta
2 msk. olía
1 msk. smjör
2 egg
4-6 sneiðar ostur eða rifinn ostur
Álegg að vali, má vera; skinka, ananas, aspas, gróft söxuð paprika, lárperusneiðar, sinnep, kimchi, stappaðar kartöflur, sólþurrkaðir tómatar eða paprika eða bara afganga af kvöldmatnum. Stundum nota ég bara ost en ef mikið er til af gúmmelaði í ísskápnum er um að gera að kríta liðugt.
Skerið gróflega innan úr brauðinu eða notið glas til að skera hring úr miðjunni. Hitið olíu og smjör saman á pönnu þar til það er vel heitt. Setjið brauðið á pönnuna, geymið bitana innan úr þar til á eftir. Brjótið egg í hverja holu og setjið bitann innan úr brauðinu ofan í holuna, saltið og piprið yfir. Steikið áfram 1-2 mín eða þar til þið sjáið að brauðið er farið að steikjast undir. Snúið brauðsneiðunum við og setjið skinku eða það sem þið viljið hafa á brauðinu ofan á sneiðina. Stráið ost yfir ásamt góðum slurk af nýmöluðum pipar og setjið lok eða álpappír ofan á. Lækkið hitann og látið steikjast þar til ostur er orðinn bráðinn.