fyrir 10
Þessi glæsilega hnallþóra hefur, í gegnum árin, verið ofarlega á vinsældalista hjá mörgum fjölskyldum. Hún gengur undir ýmsum nöfnum, stundum kennd við Bessastaði en oftar kölluð Dísudraumur og í minni fjölskyldu Draumterta. Falleg er hún og sannarlega drottning hverrar veislu og líka frábær sem eftirréttur eftir góða máltíð. Marensinn má gera með nokkra daga fyrirvara en ef þið ætlið að baka kökuna og bera fram sama dag er best að baka marensinn fyrst því hann er lengi í ofninum. Kakan er best daginn eftir að hún er sett saman því þá hefur blotnað í botnunum og hún er meira djúsí. Ég nota 22 cm breið form en með því fæ ég þessa flottu hæð á kökuna.
Kökubotninn:
2 egg (meðalstór)
70 g sykur
30 g hveiti
30 g kartöflumjöl
1 tsk. vanilluessens ( eða vanilludropar)
Hitið ofninn í 200°C ( 190°C á blástur). Þeytið saman egg og sykur þar til ljóst og loftkennt. Mælið hveiti og kartöflumjöl í skál og bætið í eggjahræruna ásamt vanilludropum. Blandið saman með sleikju. Setjið bökunarpappír á botninn á 22 cm formi og berið olíu innan á barmana á forminu. Hellið deiginu í formið og jafnið út. Bakið í 5 mín. Við 200°C en lækkið síðan hitann í 180°C (170°C blástur) og bakið í 10 mín í viðbót. Látið kökuna kólna aðeins og losið síðan varlega úr forminu.
Marensinn:
3 eggjahvítur
140 g sykur (gott að nota caster baking sugar)
Hitið ofninn í 120°C, ekki blástur. Setjið eggjahvítur og sykur í tandurhreina hrærivélaskál og þeyttið vel saman þar til stíft og fallegt. Þetta tekur um 5 mín. Setjið bökunarpappír á botninn á 22 cm formi og berið olíu innan á barmana á forminu. Jafnið marensblöndunni í formið og bakið í miðjum ofni í 1 ½ klst. Látið marensinn kólna aðeins og losið síðan varlega úr forminu.
Kremið:
½ líter rjómi
60 g 70 % súkkulaði
4 eggjarauður
4 msk. flórsykur
Þeytið rjómann og setjið í skál. Bræðið súkkulaðið í vatnsbaði við vægan hita. Hrærið eggjarauður og flórsykur mjög vel saman eða þar til ljóst og kremkennt. Bætið súkkulaði út í og síðan helmingnum af rjómanum saman við.
Kakan sett saman:
Setjið svampbotninn á tertudisk og smyrjið lagi af rjóma á hann. Smyrjið helmingnum af kreminu á rjómann. Setjið marensborn ofan á og endurtakið síðan, rjóma og krem.