Bækur Ottolengi eru vinsælar hér hjá okkur. Þegar við fengum bók hans “Simple” í hendurnar varð fljótlega spennandi tófú uppskrift fyrir valinu að elda. Uppskriftin innihélt þvílík ósköp af svörtum pipar sem við reyndar erum mjög hrifin af en 5 msk. í eina uppskrift var svolítið ótrúleg. Síðar kom í ljós að þetta er besta matreiðsla á tófú sem við höfum smakkað. Í uppskriftinni eru 3 tegundir af sojasósu, hana er hægt að nálgast í litlum pakkningum í verslunum með Asíska matvöru t.d. Fiska.is og sósurnar má nota í ýmsa aðra rétti líka. Hér er þessi spennandi uppskrift, ég hef helmingað hana því hún var talsvert stór og breytt henni aðeins að mínum bragðlaukum. Nota t.d. bara 1 1/2 msk. af pipar í 450 g af tofú sem mér finnst alveg nóg.
1 pakki tofu (450 g )
kartöflumjöl eða cornflour til að velta upp úr
olía til að steikja upp úr
70 g smjör
6 litlir skalotlaukar, afhýddir og sneiddir
2 rauðir chilipipar, saxaðir
5-6 hvítlauksgeirar, afhýddir og saxaðir smátt
1 ½ msk. saxað engifer
1 ½ msk. sæt sojasósa
1 ½ msk. létt soja sósa
2 tsk. dökk sojasósa
1 msk. sykur eða hunang
1 -2 msk. nýmalaður pipar
2-3 vorlaukar, sneiddir fínt (má sleppa)

Byrjið á að koma sósunni af stað. Bræðið smjörið á djúpri pönnu og steikið skalotlaukinn, chilipiparinn, hvítlaukinn og engiferið við hægan hita í u.þ.b.15 mín. Skerið tofuið niður í litla bita u.þ.b. 2×3 cm. Setjið kartöflumjöl í skál og veltið tofubitunum upp úr því. Hristið það mesta síðan af. Setjið olíu í lítinn pott svo nái 4 cm upp með börmum, þetta er sniðug og auðveld adferð að djúpsteikja, passið bara að fara ekki frá pottinum á meðan olían er að hitna. Þegar olían er orðin vel heit, steikið þá tofuið 1/3 hluta í einu. Færið upp úr með spaða og hafið ílát með eldhúsbréfi í botninum tilbúið þegar tofuið er steikt svo það mesta af olíunni drjúpi af. Blandið nú öllum tegundum af sojasósu og sykri saman í skál og þegar blandan á pönnunni er búin að steikjast nógu vel, bætið þá sojasósunum og pipar út í og látið blandast vel. Bætið tofuinu í og veltið bitunum svo þeir verði umluktir sósu. Stráið vorlauk yfir og berið fram með soðnum hrísgrjónum.