Allt fer í hringi í henni veröld. Núna erum við að blaða í gömlu uppskriftabókunum okkar og erum að rifja upp rétti sem voru í uppáhaldi fyrir mörgum árum. Við fengum þessa uppskrift á Parísarárunum þegar ég var í matarklúbb með hóp af konum allsstaðar að úr heiminum. Þennan kjúkling eldaði kona frá Texas og sló hann strax í gegn hjá okkur og var nánast eldaður aðra hverja helgi um árabil. Ég hef minnkað sykurinn talsvert frá upprunalegu uppskriftinni og nota gjarnan hunang, 4 – 5 msk. því það er mikið af ediki í réttinum. Eflaust má sleppa sætunni alveg ef einhver vill. Niðurstaðan var að þessi uppskrift stenst tímans tönn og var alveg jafngóð og okkur minnti.
10-16 kjúklingabitar
1 heilt hvítlaukshöfuð, geirar afhýddir og hafðir heilir
2 msk. oreganó
1 ¼ dl rauðvínsedik
1 ¼ dl olía
250 g sveskjur, hafa þær heilar
80 g ólífur
90 g kapers hella leginum út krukkunni með
4 lárviðarlauf
1 ½ -2 dl hvítvín eða rauðvín
salt og pipar
50-60 g púðursykur eða önnur sæta eins og hunang
Í þessa uppskrift sem er nokkuð stór, er mjög gott að nota 2 heila kjúklinga og brytja þá niður, ég set alla bitana út í löginn líka bakbita til að fá djúsí soð. Hrærið kryddlögin saman í stóra skál og bætið kjúklingabitum út í, við notum gráa emeleraða pottinn sem flest heimili eiga og bökum kjúklinginn síðan í honum, mjög þægilegt. Látið þetta bíða yfir nótt svo allt samlagist vel. Ég hef sett þennan rétt saman sama dag og ég elda hann, gef honum 2 tíma til að marinerast og það er í fínu lagi. Steikið kjúklingin í ofninum við 180°C hita í eina og hálfa klukkustund, hreyfið bitana til einu sinni á tímabilinu til að fá jafna steikingu. Berið fram með grjónum og mjög gott er að dýfa brauði í dásamlega vökvann sem verður til.