Amma mín gerði besta bixímat í heimi. Hún vissi að það er lykilatriði í góðu bixí að saxa allt mjög smátt og gefa grænmetinu tíma til að samlagast hverju fyrir sig á pönnunni. Það sem ég síðan bætti við og er mitt “leynitrix” er mangó chutney. Það gefur mjög gott sætt kryddað bragð. Ég brytja líka gjarnan 2-3 kartöflur niður og sýð í potti á meðan ég er að saxa allt niður, það er mun betra en soðnar sem verða oft of maukaðar þegar þær steikjast með hinu. Meðlætið er síðan atriði, heimalagaðar rauðrófur er að finna annarstaðar á blogginu. Það er augljóst að við elskum bixímat !
olía og smjör til að steikja upp úr (magn eftir smekk u.þ.bl. 2 msk af hvoru)
1 laukur
1 gulrót
góður biti af rófu, steinseljurót, eða sellerírót eða allt af þessu
soðnar kartöflur í bitum
400-500 g afgangur af elduðu lambakjöti
½ dl tómatsósa
2-3 msk. mangó chutney
Salt og nýmalaður pipar
fersk steinselja ef hún er til
Bræðið olíu og smjör saman á pönnu. Saxið laukinn smátt og steikið hann þar til hann fer að verða glær en brúnast líka pínulítið. Saxið allt grænmetið og kjötið smátt og bætið út í einni tegund í einu og látið malla með lauknum. Endilega nota afganga og ef allar tegundir af rótum eru til, bara blanda út í, kartöflunum síðast. Bætið kjötinu í síðast og hitið vel í gegn. Má e.t.v bæta aðeins smjöri í ef vill. Látið krauma þar til vel heitt og girnilegt. Bætið þá tómatsósu og mango chutney út í og látið blandast vel saman. Smakkið til með salti og pipar, ég mala pipar vel yfir. Stráið steinselju yfir og berið fram með heimalöguðum rauðrófum, heimapikluðum lauk, spældu eggi, niðursoðnum jalapeno og mangó chutney.