Þessa dagana erum við að skoða gamlar uppskriftabækur og okkur finnast þessar kökur alltaf svo undurfallegar. Múrsteinar voru einar af mínum uppáhalds smákökum og ég á minningar um að borða fyrst kökuna allan hringinn og marensin síðast, namm ! Heyrði síðan af einni jafnöldru sem komst í kökudunkinn þegar hún var barn. Matur kallar oft fram dýrmætar minningar.
250 g hveiti
½ tsk. hjartarsalt (má sleppa en það gerir kökurnar stökkar)
125 gr sykur
190 g smjör, kalt í teningum
1 eggjarauða
Setjið hveiti, hjartarsalt og sykur á borð eða í stóra skál. Myljið smjörið saman við með höndum eða í hrærivél þar til það er vel samlagað. Bætið eggjarauðu út í og hnoðið vel saman. Pakkið inn og geymið í kæliskáp í 30 mínútur. Hitið ofninn í 180°C. Setjið bökunarpappír á ofnplötu. Hrærið marensinn saman og setjið í sprautupoka ef þið eigið hann. Skiptið deiginu í 4 hluta. Fletjið út einn hlut í einu með rúllukefli og stingið út litlar kökur ca. 5 cm í þvermál. Setjið marensdoppu á hverja köku annað hvort með sprautupoka eða tveim teskeiðum. Sáldrið svolitlu af möndlum og sykri ofan á hverja köku. Geymið afskurðinn og setjið saman síðast í eina deigkúlu síðast. Bakið kökurnar í 8-9 mín eða þar til þær eru gullnar og girnilegar. Uppskriftin gefur 60 kökur.
Marens:
2 eggjahvítur
250 g flórsykur
Hrærið eggjahvítur og flórsykur saman í tandurhreinni skál þar til blandan er hvít og fallega stíf.
Ofan á:
50 gr. möndlur, saxaðar
10 sykurmolar malaðir gróft eða perlusykur