Hér er uppskrift að dýrindis hreindýrabollum. Þeir sem eru svo lánsamir að ná í dýr vita að þegar það er verkað verða til ósköpin öll af hreindýrahakki. Margir leysa það með því að elda hamborgara og hakkið er frábært í þá. Borgarar verða samt leiðigjarnir til lengdar og tilvalið að elda bollur úr þessu frábæra hráefni.
Bollur:
500 g hreindýrahakk
2 brauðsneiðar eða ¾ dl gott brauðrasp
8-10 einiber, steytt
1 tsk. heill allrahanda eða ½-3/4 tsk. duft
12-14 þurkaðar apríkósur, saxaðar smátt
1 egg
3 msk. rjómi
salt og nýmalaður pipar
2 msk. olía til að steikja upp úr
Sósa:
2 msk. olía
1 laukur, saxaður
2 ½ dl vatn + villikraftur
¾ dl rjómi
e.t.v. örlítið af sósuþykki
Blandið öllu saman sem fer í bollurnar, það er gott að gera það í hrærivél með hræraranum, annars bara hnoða saman í skál. Mótið frekar litlar bollur. Steikið laukinn í olíu og setjið til hliðar á disk. Steikið bollurnar, helminginn í einu svo þær brúnist vel. Bætið lauknum aftur á pönnuna með bollunum. Hellið vatni og villikraft út á, látið suðuna koma upp, lækkið síðan og látið allt malla saman í 10-15 mín, fer eftir stærð á bollum. Bætið rjómanum út í, sjóðið saman og smakkið til mað salti og pipar. Þykkið með sósuþykki. Berið fram með soðnum kartöflum, rabarbarasultu og heimalöguðum rauðrófum.
Heill allrahanda fæst í Melabúð