Brauðmeti í barnaafmæli þarf ekki að vera flókið. Þessi ostahorn slá alltaf í gegn, líka hjá fullorðna fólkinu þau eru nefnilega ótrúlega góð. Galdurinn liggur í smjörinu, en ekki hvað ! Smjörið er mulið saman við hveitið fyrst og gerir þau einstaklega djúsí. Uppskriftin gerir 48 stk. en mjög auðvelt er að minnka hana um helming. Þessi uppskrift er til að merkja og eiga.
700 g hveiti
300 g heilhveiti
2 msk. sykur
1 ½ tsk. salt
200 g smjör, kalt, skorið í bita
5 dl volg mjólk (37°C, fingurvolg)
1 pk. þurrger (11 g)
2 egg
Blandið hveiti og heilhveiti saman í skál. Myljið smjörið saman við, þetta er hægt að gera í hrærivél með hræraranum. Bætið öllu öðru út í og ef þið eruð með hrærivél, setjið deigkrókinn á og hnoðið saman í samfellt deig. Látið hefast á hlýjum stað í 30-60 mín. Skiptið deiginu í 4 parta. Fletjið hvern part út og setjið ½ dós af skinkumyrju og u.þ.bl. 100 g ost á hvern part. Skiptið hverri köku upp í 12 bita, í þríhyrninga, hér gott að nota pitsuskerann. Rúllið hverjum þríhyrning upp og raðið á pappírsklædda bökunarplötu. Látið hefast aftur í 30-60 mín. Hitið ofninn í 200°C (195°C á blástur). Penslið með sundurslegnu eggi. Bakið í 12-15 mín.
Innan í:
2 ds. Skinkumyrja
400-500 g rifinn ostur
1 egg sundurslegið til að pensla með