Hér er uppskrift að frábæru brauði sem inniheldur mjög lítið af þurrgeri. Galdurinn er að láta deigið hefast lengi eða í 12-18 klst. og baka það í pottjárnspotti. Við notum gjarnan brauðhveitið í bláu pokunum en það er gaman að nota aðrar tegundir eins og lífrænt hveiti eða blanda saman tegundum. Ef þið notið gróft mjöl þarf að nota meira af þurrgeri eða u.þ.b. 1/2 -1 tsk. Þið þurfið að ganga úr skugga um að lokið á pottinum þoli þetta háan hita, ef ekki er ráð að nota álpappír ofan á pottinn fyrstu 30 mínúturnar.
470 g brauðhveiti
1/4 tsk. þurrger
1 msk. salt
360 g vatn
Hrærið öllu saman í skál, gott er að nota sleif. Setjið þétt plast eða annað sem þið eruð vön að nota yfir skálina og látið deigið bíða við stofuhita í 12-18 klst. Þegar þið eruð tilbúin að baka brauðið, hitið þið ofninn í 240°C. Setjið pottjárnspott með loki í ofninn, hann á að hitna með. Veltið deiginu saman í skálinni með deigsköfu, ekki hnoða. Takið pottinn úr ofninum og berið olíu inn í hann. Hellið brauðinu í pottinn, setjið lok á hann, lækkið hitann í 220°C og bakið brauðið í 30 mín. Takið lokið af pottinum og bakið áfram í 15 mín. Takið brauðið úr pottinum og látið rjúka úr því í 10-15 mín áður en þið skerið það í sneiðar.