Janúar er alltaf svolítið spennandi mánuður, nýtt ár með öllu því sem því fylgir. Allir búnir að rasa svolítið út í mat um hátíðarnar, jú þetta voru mikil matarjól, margir frídagar og mikið borðað. En alltaf langar okkur í eitthvað gott og nærandi, janúar eða annar mánuð. Hér er uppskrift að dásamlegu og hollu sardínubrauði fyrir tvo. Tilvalinn hádagismatur eða léttur kvöldmatur.
4 msk. ólífuolía
1 msk. sjerríedik (má vera annað gott edik)
sjávarsalt og nýmalaður pipar
1 x 120 g. dós sardínur í ólífuolíu (Marokkósku í Costco eru t.d. góðar)
1 -2 stilkar vorlaukur, sneiddur
1 dl paprika í olíu, skorin í bita
½ rauður chilipipar, saxaður eða sneiddur
¼ – ½ tsk. reykt paprika (eftir smekk)
2 sneiðar súrdeigsbrauð
Útbúið dressingu með ólífuolíu og sjerríediki og smakkið til með salti og pipar, setjið til hliðar. Setjið sardínur á disk og raðið þeim þétt í einu lagi. Marokkósku sardínurnar eru beinhreinsaðar og henta því vel í þennan rétt. Dreifið vorlauk, paprikubitum, chilipipar og reyktri papriku yfir. Hellið dressingu yfir og látið í ísskáp í 1-2 klst. Þegar kemur að því að bera fram, ristið súrdeigsbrauðsneiðar og raðið sardínum jafnt á milli, hellið dressingu yfir allt og berið fram.