Við í Salt Eldhúsi elskum smákökur með smjörbragði og reyndar allar gömlu góðu kökurnar sem voru bakaðar hér áður fyrr eins og spesíur, Bessastaðakökur, hálfmána, gyðingakökur, mömmukökur og þessa fallegu vanillukransa. Í þeim er ekta vanilla og malaðar möndlur sem passa undurvel við fínlega smjörbragðið.
250 g hveiti
125 g flórsykur
100 g afhýddar möndlur, malaðar fínt
1 vanillustöng
2-3 tsk. vanillusykur
250 g kalt smjör, skorið í litla bita
Skerið vanillustöngina í tvennt eftir endilöngu og skafið kornin innan úr. Stöngina getið þið þurrkað, blandað síðan saman við sykur og malað fínt og notað seinna. Blandið saman hveiti, flórsykri, möluðum möndlum, kornum úr vanillustöng og vanillusykri. Myljið smjörið saman við deigið með höndunum eða í hrærivél með hrærara. Hnoðið deigið þar til það er sprungulaust, pakkið í plastpoka og kælið það í klukkutíma. Hitið ofninn í 185°C. Leggið bökunarpappír á tvær bökunarplötur. Sprautið lengjur með stjörnumunstrinu á hakkavélinni og skerið eða klípið það í lengjur. Formið kransa og raðið á bökunarplötuna, þær renna nær ekkert út þannig að það má raða nokkuð þétt. Ef þið eigið ekki hakkavél er líka hægt að rúlla deigið út í mjóar lengjur, festa saman í litla kransa og setja á plötuna. Bakið í 8 mín eða þar til fallega gullnir á litinn.