Á nokkrum námskeiðum hjá okkur í Salt Eldhúsi eins og Marokkóska námskeiðinu og Mezze smáréttir Mið-Austurlanda notum við saltar sítrónur í matargerðina. Í löndunum að botni Miðjarðahafs er algengt að nota þessar salt-súru sítrónur sem krydd og gefa þær mjög spennandi bragð í matinn. Auðvelt er að gera þær sjálfur en hafa þarf í huga að þær þurfa að bíða í 6 vikur til að verða tilbúnar en þá er hægt að geyma þær í ísskáp í allt að eitt ár.
6-8 sítrónur, best er að nota litlar sítrónur með þunnum berki, t.d. lífrænar
150 g gróft salt
2 ½ dl sítrónusafi, þið þurfið a.m.k. 4-6 stk. fer eftir hversu safaríkar þær eru
¼ tsk. svört piparkorn (má sleppa)
1 líterskrukka með þéttu loki
Byrjið á því að sótthreina krukkuna með því að þvo hana úr volgu sápuvatni, skola vel og setja í 100°C heitan ofn í 10 mín.
Skrúbbið sítrónur, þessar sem eiga að fara í krukkuna, undir volgu vatni með bursta. Skerið þær í fjóra báta. Setjið saltið í skál og veltið sítrónubátunum upp úr því og raðið þeim síðan þétt í krukkuna. Hellið sítrónusafanum, piparkornum og því sem er eftir af saltinu í krukkuna þannig að sítrónusafinn fljóti yfir sítrónurnar. Bætið meira af safa í ef þarf. Það er mikilvægt að sítrónurnar standi ekki upp út safanum og er ráð að setja eitthvað farg eins og plastdós, lok eða slíkt sem má fara í mat (ekki ál). Geymið sítrónurnar á dimmum, helst svölum stað í 6 vikur. Þegar þið hafið notað úr krukkunni er best að geyma hana í ísskáp. Geymist í 6 -8 mánuði.
Nota má bæði börk og aldinkjöt í ýmsa rétti eins og grænmetisrétti, kjúklingarétti og salöt.