Í Salt Eldhúsi erum við upptekin af því að elda allt frá grunni. Matur og bakstur úr besta fáanlega hráefni er einfaldlega það besta sem til er. Oft vill það vera þannig að það heimatilbúna er miklu betra en keypt tilbúið og þetta möndlusmjör gjörsamlega sprengdi skalann í samanburði við keypt, þó það keypta hafi verið gæðavara.
300 g möndlur með hýði
4-5 msk. ólífuolía
1/2 tsk. sjávarsalt eða eftir smekk
Hitið ofninn í 200°C, setjið möndlur á bökunarpappír í ofnskúffu og bakið möndlurnar í 10 mínútur eða þar til þær eru vel bakaðar og eldhúsið ilmar dásamlega. Það má líka rista þær á pönnu ef þið eigið nógu stóra pönnu og þá tekur svipaðan tíma að rista þær svo þær hitni vel. Setjið möndlur í matvinnsluvél og látið hana ganga þar til möndlurnar eru malaðar. Hellið olíunni í smátt og smátt og látið vélina ganga, bætið salti í og smakkið til. Setjið í krukku, þetta magn er í 2 litlar krukkur eða eina stóra. Geymist í 2 vikur í kæli. Dásamlegt á ristað súrdeigsbrauð og e.t.v. með örlitlu hunangi spari.