Gott er að eiga nokkrar einfaldar og góðar pastauppskriftir í handraðanum, sér í lagi þessar sem hægt er að gera með því að eiga svokallaða “hilluvöru” eins og pasta og túnfiskdós í skápnum. Þetta er einföld pastauppskrift og meiriháttar góð en það er með þennan rétt eins og flesta aðra, hann verður eins góður og hráefnið er sem í hann fer. Það merkilega er að vandað hráefni þarf ekki alltaf að vera dýrara, oft er þó meiri fyrirhöfn að ná í það. Góður túnfiskur fæst í mörgum verslunum og er ráð að kaupa nokkrar dósir í einu og eiga í skápnum. Við notum gæðatúnfisk í þessa uppskrift, hann fæst víða og nokkrar tegundir til, Callipo, Otis og Palacio de Oriente eru allar í uppáhaldi. Eins er atriði að kunna á tómatpúruna sem maður notar. Sumar ódýrari tegundir eru mjög súrar eða sýrumiklar og þá gildir að bæta aðeins hunangi eða sykri í réttinn ef hann er ekki í uppskriftinni fyrir. Góð tómatpúra er gulls ígildi og um að gera að smakka sig til.
400 g pasta
3-4 msk. olía (eða meira eftir smekk)
3 hvítlauksgeirar, skornir í tvennt
1 dós túnfiskur í olíu
3 msk. góð tómatpúra
2 msk. sjóðandi vatn
hnefafylli fersk steinselja, söxuð
salt og nýmalaður pipar
Setjið upp vatn fyrir pasta og sjóðið það eftir leiðbeiningunum. Hitið olíuna á pönnu og steikið hvítlaukinn í henni við vægan hita svo gott hvítlauksbragð komi í olíuna, takið hann síðan af pönnunni með spaða. Hellið mestu af olíunni af túnfisknum og setjið hann á pönnuna, steikið hann í svolitla stund þar til hann losnar í sundur, u.þ.b. 2 mínútur. Bætið tómatpúrunni á pönnuna ásamt heita vatninu, látið þetta malla saman í nokkrar mínútur. Malið pipar yfir og smakkið til með salti. Takið 3-4 msk. af pastavatninu og bætið á pönnuna. Sigtið pastað og setjið á pönnuna ásamt steinselju. Blandið öllu vel saman og skiptið síðan á diska. Rífið parmesanost yfir hvern skammt.