Súkkulaðikaka

Við í Salt Eldhúsi höfum síðustu árin alltaf bakað súkkulaðiköku á Skírdag. Þessi súkkulaðikaka sem oft er kölluð afmæliskakan verður gjarnan fyrir valinu. Hún er orðin “klassiker” hjá okkur og ómissandi þegar halda á upp á eitthvað. Í upprunalegu uppskriftinni eru notuð amerísk bollamál og við birtum hana þannig hér.

Afmæliskaka

Botnar:

2 bollar hveiti

1 1/2 bolli sykur

4 msk. dökkt kakó

130 g smjör, mjúkt

1 tsk. matarsódi

1 tsk. lyftiduft

1 bolli mjólk

2 stór egg eða 3 minni

Hitið ofninn í 175°C, 165°C á blástur. Setjið allt hráefni sem er í uppskriftinni, nema egg, í hrærivélarskál og hrærið það saman í 2 mín. Bætið eggjum út í, einu í einu og hrærið aðrar 2 mín. Setjið deigið í 2 smurð 24 cm eða 26 cm breið kringlótt kökuform og bakið botnana í 25 mín ( um 20 á blæstri) kakan er tilbúin þegar hún losnar frá börmunum og prjóni sem stungið er í hana kemur hreinn út. Kælið kökubotnana.

Krem:

300 g flórsykur

200 g smjör

2 msk. vatn

3-4 msk. dökkt kakó

1 tsk. vanilludropar

Sigtið flórsykur í hrærivélarskál. Takið 100 g af smjörinu og setjið í pott með vatni og kakó og sjóðið saman þar til vel samlagað. Hellið út í flórsykurinn og hrærið vel saman. Bætið restinni af smjörinu út í litlum bitum og hrærið þar til kalt. Kremið er fyrst dökkt en verður ljósara þegar það kólnar og er hrært áfram. Bætið vanillu út í og hrærið saman við. Leggið botnana saman með kreminu og smyrjið kreminu utan á kökuna. Skreytið hana með nammi eða kókosmjöli.

20100425-_IGP6969.jpg

Posted by

Við í Salt Eldhúsi erum miklir sælkerar og erum sífellt að prófa okkur áfram í matargerð og að skapa nýja rétti. Ég er annar eigandi og framkvæmdastjóri Salt Elhúss ehf, kennslueldhúss sælkerans, fyrrum þáttagerðarmaður og síðan ritstjóri á Gestgjafanum. Hér á blogginu setjum við inn okkar uppáhalds uppskriftir.

2 thoughts on “Súkkulaðikaka

Leave a comment