Einföld og fljótleg frönsk súkkulaðimús. Varla þarf að taka fram að súkkulaðið skiptir máli og gott að nota gæðasúkkulaði, það besta sem völ er á.
130 g dökkt súkkulaði, það besta sem völ er á
50 g ósaltað smjör
2 egg, aðskilin
50 g flórsykur
Bræðið súkkulaði og smjör í vatnsbaði. Hér er mikilvægt að láta þetta bráðna við hægan hita og taka góðan tíma í það. Ef súkkulaðið verður of heitt verður það gróft og þurrt þegar eggjarauðurnar fara út í og erfitt að blanda því saman við hvíturnar.
Takið súkkulaðiblönduna af hitanum og bætið eggjarauðunum báðum út í og hrærið saman við. Náið ykkur í tandurhreinna stál- eða glerskál. Þeytið eggjahvítur þar til þær fara að stífna, bætið flórsykri í einni skeið í einu og þeytið þar til hvítur eru stífar. Hellið súkkulaðiblöndunni út í hvíturnar og blandið saman við með sleikju. Skiptið í 4 fallegar skálar og skreytið e.t.v. með þeyttum rjóma. Látið kólna í a.m.k. 1 klst.