Gott meðlæti setur alltaf punktinn yfir i-ið og þessar kartöflur eru svo sannalega fyrirhafnarinnar virði, bæði fallegar og undurgóðar. Hér eru stórar bökunarkartöflur notaðar en það má líka nota litlar kartöflur og þá er bökunatíminn styttri og líka má skera bökunarkartöflur í tvennt ef þær eru mjög stórar.
4 kartöflur (800 g)
60 g smjör, brætt
4 lárviðarlauf
nokkrir ferskir timan- eða rósmarinkvistir eða 1-2 tsk. þurrkað
salt og nýmalaður pipar
Stillið ofninn á 200°C. Skrælið kartöfnurnar eða þvoið þær vel og þerrið ef þið viljið hafa hýðið með. Setjið kartöflu á bretti og skerið skurði þvert á hverja kartöflu með 3 mm millibili en ekki skera alla leið niður heldur hafa 1 cm neðst á kartöflunni heilan svo hún haldist saman. Gott er að hafa mjó sleifsköft, eða önnur sköft ef þið eigið, sitt hvoru megin til að auðvelda verkið svo hnífurinn fari ekki alveg niður á brettið. Raðið kartöflunum í ofnskúffu eða á bakka sem má fara inn í ofn. Brjótið lárviðarlauf í minni bita og stingið þeim á milli skurðanna á u.þ.b. 4-5 stöðum, þau mega gjarnan standa upp úr, það er bara fallegt. Stingið líka timian eða rósmarin á sama hátt á milli laga. Penslið nú ríkulega með smjöri, saltið og piprið yfir og stráið timian eða rósmarín ef þið notið þurrkað. Bakið í ofninum í 50-60 mín, tíminn fer eftir stærðinni á kartöflunum. Penslið einu sinni til tvisvar með smjöri á meðan á bakstrinum stendur.