Þær eru fljótlegar og hollar þessar girnilegu bollur. Ef þið eigið ekki ólífur eða einfaldlega finnst þær ekki góðar má gjarnan nota fetaost, sólþurrkaða tómata, trönuber eða þurrkaða ávexti. Upprunalega er þessi uppskrift frá henni Jóhönnu sem sá um grænkeraþátt í Gestgjafanum um árabil. Hér er hún í örlítið breyttri mynd.
150 g brauðhveiti
150 g gróft spelt eða heilhveiti
2 ½ tsk. lyftiduft
½ – 1 tsk. sjávarsalt (eftir smekk)
1 dl sesamfræ
1 dl sólblómafræ
½ dl hveitikím eða hveitiklíð
¼ dl hörfræ
2 ½ dl heitt vatn
2 msk. agavesíróp eða hunang
1 msk. sítrónusafi
1-2 dl ólífur eða sólþurkaðir tómatar eða blanda af bæði til að setja ofan á
Hitið ofninn í 180°C. Setjið öll þurrefnin í skál. Setjið vatn, síróp eða hunang og sítrónusafa saman í aðra skál. Hellið vökvanum í hveitiblönduna og hrærið saman með sleif. Setjið bökunarpappír á ofnplötu. Mótið litlar bollur með matskeið á plötuna, þær eiga að vera u.þ.b. 18-20. Þær stækka ekki mjög mikið en gott að hafa aðeins bil á milli. Skerið ólífur í stóra bita og setjið ólífur 2-3 bita á hverja bollu. Bakið bollurnar í 15-18 mín, tíminn fer eftir ofni hverju sinni. Mjög gott að frysta og hita upp aftur í 100°C heitum ofni í 10 mín.