Sesar salat

Hver kannast ekki við  hafa pantað sér Sesar salat á veitingahúsi, afgangskjúklingur, brauðteningar úr pakka og bragðlaus sósa út á, oj… Galdurinn við að gera gott Sesar salat, fyrir utan að nota ferska brauðteninga og nýsteiktan kjúkling, liggur í sósunni. Ansjósur eru lykilatriði til að fá hana bragðmikla og krassandi. Heimagert Sesar salat er engu líkt og uppáhald okkar í Salt Eldhúsi. Uppskriftin dugar fyrir 4 svanga.

½ snittubrauð eða annað gott brauð skorið í munnbitastærð

3 msk. olía

½  tsk. sjávarsalt

3 msk. söxuð steinselja

 

2 msk. olía

3 kjúklingabringur, skornar í munnbitastærð

2 stk. romaine salat eða dágott magn af blönduðu safaríku grænu salati

parmesanostur, rifinn niður í flögur (u.þ.b. 30 g )

hnefafylli steinselja, söxuð

 

Hitið ofninn í 200°C. Setjið bökunarpappír í ofnskúffu og dreifið brauðinu á hann. Sáldrið olíu, salti og steinselju yfir og veltið brauðinu upp úr því. Bakið brauðið þar til gullið og girnilegt. Fylgist vel með því það tekur stutta stund.

 

Steikið kjúklingabitana upp úr olíu þar til þeir eru gegnsteiktir. Setjið salatið í rúmgóða skál. Bætið kjúklingabitum og brauðteningum í ásamt sósunni og blandið saman. Sáldrið flögum af parmesanosti og steinselju yfir í lokin.

 

Sósa:

2 ansjósuflök

1 hvítlauksgeiri, marinn

½ tsk. sjávarsalt

1 msk. hvítvínsedik

5 msk. majones

1 dl rifinn parmesanostur

 

Merjið ansjósuflökin í skál með skeið þar til þau eru orðin að mauki. Blandið öllu öðru hráefni í og hrærið saman í sósu. Smakkið til. Sósan á að vera það þunn að auðvelt sé að hella henni en þó það þykk að hún festist á salatinu. Þynnið hana með vatni ef hún er of þykk.

Posted by

Við í Salt Eldhúsi erum miklir sælkerar og erum sífellt að prófa okkur áfram í matargerð og að skapa nýja rétti. Ég er annar eigandi og framkvæmdastjóri Salt Elhúss ehf, kennslueldhúss sælkerans, fyrrum þáttagerðarmaður og síðan ritstjóri á Gestgjafanum. Hér á blogginu setjum við inn okkar uppáhalds uppskriftir.

Leave a comment