Hér er kominn tilvalinn helgarréttur, létt og ljúfengt salat. Fallegt að setja þetta salat frekar á fat en djúpa skál því þannig nýtur það sín best. Hér er samsetningin á þessu vinsæla salati frekar einföld en gjarnan má bæta konfekttómötum og kjarnhreinsuðum agúrkum í það líka ef vill. Uppskriftin er fyrir 4.
2 góðar sneiðar nautakjöt, annaðhvort rib-eye eða sirlon-sneiðar (400-500 g samtals)
2 msk. olía
1 poki salat, helst blandað með rauðu salati í líka
1 stór gulrót eða 2 minni
3 vorlaukar
8 radísur, sneiddar fínt
Hnefafylli mynta, söxuð
4 msk. kasjúhnetur, ristaðar á pönnu í örlítilli olíu
Hitið olíu á pönnu og steikið nautasneiðarnar þar til þær verða miðlungssteiktar, saltið og piprið. Munið að láta kjötið bíða í 15 mínútur eftir að það hefur verið steikt svo safinn haldist í því þegar það er skorið. Skolið salatið og þerrið og setjið á stórt fat. Afhýðið gulrótina og skerið í þunna strimla eftir endilöngu með kartöfluflysjara. Skáskerið vorlaukinn í þunnar sneiðar. Setjið gulrætur, vorlauk og radísur ofan á salatið. Skerið nautasneiðarnar í u.þ.b. 1 cm þykkar sneiðar og raðið fallega ofan á grænmetið. Bætið saxaðri myntu og kasjúhnetum ofan á og dreypið að síðustu salatsósunni yfir.
Salatsósa:
1 hvítlauksgeiri, saxaður gróft
1 ferskur chilipipar, sneiddur
2 tsk. hrásykur
2 msk. fiskisósa
2 límónur, safinn af þeim
Setjið hvítlauk og chilipipar í mortel og maukið vel. Setjið allt annað hráefni út í og blandið vel saman. Smakkið til, sósan á að vera sæt/sölt með súrum keim.