Á námskeiðunum okkar eins og á makrónunámskeiði og námskeið í súrdeigsbakstri þar sem ekki er eldaður matur bjóðum við upp á heimabakað brauð og góða súpu. Oftar en ekki vilja nemandur fá uppskriftina af góðgætinu og hér er uppskrift að pönnubrauðinu okkar góða. Brauðið er stórt enda á það að duga fyrir 16 manns en það er mjög gott að frysta það ef afgangur verður.
Eitt stórt brauð
700 g hveiti
200 g brauðhveiti
100 g byggmjöl
1 msk. sjávarsalt
2 tsk. þurrger
6 dl vatn
150 g súr
¾ -1 dl olía, til að setja ofan á og undir brauðið
3 tsk. krydd t.d. rósmarin, timian eða oreganó eða blanda af öllu
Dagur 1:
Setjið þurrefni saman í hrærivélaskál og blandið þeim saman. Setjið vatn og súr saman í skál og hrærið saman. Hellið vökvanum í hveitiblönduna og hnoðið með hnoðaranum í 8-10 mín. Leggið plast eða annað sem ykkur hugnast yfir hrærivélaskálina og látið deigið hefast í ísskáp yfir nótt. Það mun nær tvöfaldast að ummáli.
Dagur 2:
Takið deigið úr skálinni og fletjið það út þannig að það passi í ofnskúffu. Setjið bökunarpappír í ofnskúffu og hellið svolitlu af olíu á pappírinn. Leggið brauðið í skúffuna, það er allt í lagi þó það fylli ekki út í hornin, það á eftir að hefast og bakast og tekur þá allt plássið. Látið deigið nú bíða í 1-2 tíma við stofuhita. Setjið nú holur í deigið með fingrunum og hellið ólífuolíu ofan á það, stráið kryddi og e.t.v. sjávarsalti ofan á deigið. Hitið ofninn í 200°C. Setjið inn í heitan ofninn og bakið brauðið í 40-50 mín. Fer svolitið eftir ofninum hversu lengi þarf að baka en brauðið á að vera orðið gullið og vel bakað ofan á.