Er sumarið ekki að koma ? Þetta girnilega salat er alveg til þess fallið að bræða hjarta elskunnar þinnar og öll höfum við löngun til þess að dekra við hann eða hana. Nú þegar sumarið er á næsta leiti, jú jú það er að koma, er góð stemming í því að hafa þetta djúsí salat í helgarmatinn.
Fyrir 2
1/2 eggaldin, skorið í fingurþykkar sneiðar
3 msk. olía
300 g lambafille, 1 stórt eða tvö minni
1 poki blandað salat, gjarnan með spínati og klettakáli saman við
3 msk. furuhnetur, þurrristaðar (má líka nota pecan- eða valhnetur)
1 -2 dl sólkysstir tómatar (hálf sólþurrkaðir)
1/2 granatepli, kjarnar úr því (má sleppa)
6 msk. góð ólífuolía
2 msk hindberjaedik
Sjávarsalt og nýmalaður pipar
Hitið ofninn í 180°C. Steikið eggaldinsneiðarnar á báðum hliðum í olíu, Geymið á disk. Það er smávandi að steikja eggaldin best er að nota teflohúðaða pönnu og pensla sneiðarnar með olíunni áður er þið byrjið að steikja, pensla svo aftur á miðri leið. Ekki bæta meiri og meiri olíu á pönnuna eins og virðist þurfa, bara taka tíma í þetta.
Steikið lambafille á pönnu með fituhliðina niður fyrst og síðan á öllum hliðum þar til þær eru brúnaðar. Setjið í ofninn í 10-15 mín, tími fer eftir stærð. Setjið salatið á fat. Rífið eða skerið eggaldinsneiðar í tvennt og raðið ofan á. Skerið lambafille í sneiðar og raðið líka ofan á. Dreifið sólkysstum tómötum, furuhnetum og granateplakjörnum ofan á og hellið olíu og hindberjaediki yfir. Saltið og piprið. Berið fram með góðu brauði og rauðvíni.
Sumarlegt salat með lambafille